Ágæti lesandi.

Síðustu fjögur ár hefur Alcoa Fjarðaál gefið út samfélagsskýrslu sem fylgir stöðlum GRI um samfélagsskýrslugerð. Í fyrra var tekin sú ákvörðun að fylgja einnig þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samræmast starfsemi og stefnu okkar í samfélagsábyrgð.

Ákveðið var að einblína á sex af þeim 17 heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa innleitt, en þau markmið sem þóttu best eiga við okkar starfsemi eru:

Markmið 3: Heilsa og vellíðan

Markmið 5: Jafnrétti kynjanna

Markmið 8: Góð atvinna og hagvöxtur

Markmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla

Markmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum

Markmið 17: Samvinna um markmiðin

Í yfirliti yfir markmið okkar í samfélagsábyrgð 2020 má sjá hvernig heimsmarkmiðin tengjast markmiðum fyrirtækisins.
Fjarðaál vill ganga á undan með góðu fordæmi og vera fyrirmynd annarra fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð. Við leggjum áherslu á að vinna náið með nærsamfélaginu og hagsmunaaðilum og gegnsæ upplýsingagjöf er mikilvæg í því sambandi. Gott dæmi um slíkt er einmitt þessi skýrsla. Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að móðurfélag Fjarðaáls, Alcoa, var tilnefnt af Dow Jones Sustainability Index (DJSI) sem leiðtogi áliðnaðarins í samfélagsábyrgð á síðasta ári.

Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins. Á síðastliðnu ári flutti félagið út vörur fyrir rúman 81 milljarð króna (664M USD) og þar af urðu 30,6 milljarðar króna eða 38% eftir í landinu. Þá greiddi fyrirtækið ríflega einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi. Liður í stuðningi fyrirtækisins við nærsamfélagið eru styrkir frá Fjarðaáli og Alcoa Foundation til ýmissa samfélagsverkefna og á síðastliðnu ári var úthlutað tæpum 200 milljónum króna til samfélags- og menningarmála.

Fjarðaál vill ganga á undan með góðu fordæmi og vera fyrirmynd annarra fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð.

Rekstrarárið 2019 var okkur því miður þungt, sérstaklega á seinni hluta ársins. Við glímdum við óstöðugleika í kerskálanum sem hafði neikvæð áhrif á framleiðsluna og árangur okkar í umhverfismálum. Þrátt fyrir það var öll losun frá fyrirtækinu innan starfsleyfismarka. Samhliða þessum erfiðleikum þurftum við að glíma við hækkandi hráefnisverð, aukinn launakostnað og lækkandi álverð. Þar sem við náðum ekki þeim árangri sem við ætluðum okkur í umhverfismálum merkir það ekki að þau markmið sem við settum fram í samfélagsskýrslunni okkar á síðasta ári verði lögð til hliðar heldur verður haldið áfram að vinna með þau.

Við reyndum eftir bestu getu að hlúa að starfsfólki okkar á álagstímanum á síðasta ári. Það var ánægjulegt að finna fyrir miklum samhug hjá starfsfólki í að takast á við erfið rekstrarskilyrði. Á síðastliðnu ári héldum við áfram í vegferð okkur í jafnréttismálum og í samstarfi við Capacent var hafist handa við innleiðingu á Jafnréttisvísi. Þetta þótti rökrétt framhald í því verkefni að halda áfram að efla vinnustaðarmenningu Fjarðaáls og ekki síst að gera vinnustaðinn að aðlaðandi kosti fyrir konur. Markmið Fjarðaáls hefur ávallt verið að hafa jöfn kynjahlutföll og á síðasta ári náðum við að auka hlutfall kvenna þrátt fyrir að við eigum enn langt í land. Nú eru konur um 23,5% þeirra sem starfa hjá Fjarðaáli.

Samfélagsskýrslan er aðgengileg rafrænt á slóðinni samfelagsskyrsla.alcoa.is en þar eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og starfsemi fyrirtækisins aðgengilegar öllum. Enn fremur er sú leið valin að gefa skýrsluna eingöngu út rafrænt til að lágmarka umhverfisspor við útgáfuna.

Tor Arne Berg