ALCOA FJARÐAÁL

UMHVERFI

MANNAUÐUR

SAMFÉLAG

EFNAHAGUR OG VIRÐISKEÐJA

ALCOA FJARÐAÁL

Um starfsemi Alcoa Fjarðaáls

Hlutverk álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðar­firði er að fram­leiða ál á hag­kvæman, örugg­an og um­hverfis­vænan hátt. Stefna félags­ins er að ein­beita sér að þessari kjarna­starf­semi og láta öðrum fyrir­tækjum eftir ýmsa stoð­þjón­ustu sem tengist rekstr­inum. Á þennan hátt stuðlar Alcoa Fjarðaál að upp­bygg­ingu atvinnu­lífs á svæðinu.

Alcoa Fjarðaál sf. að Hrauni 1 í Reyðar­firði hóf álfram­leiðslu í byrjun apríl 2007 og var komið í fulla fram­leiðslu í ágúst 2008. Fram­leiðslu­geta álvers­ins er í dag allt að 360 þús­und tonn af áli á ári sam­kvæmt starfs­leyfi. Starfs­menn Alcoa Fjarða­áls voru um 544 að meðal­tali árið 2017. Auk þeirra vinna að jafn­aði um 350 verk­takar á vegum ann­arra fyrir­tækja í álver­inu eða á álvers­lóð við ýmis störf svo sem fram­leiðslu, við­hald, þjón­ustu og ráðgjöf.

Hlutverk álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðar­firði er að fram­leiða ál á hag­kvæman, örugg­an og um­hverfis­vænan hátt.

Fyrirtækið starfar sam­kvæmt starfs­leyfi út­gefnu þann 8. nóv­ember 2010. Starf­semi fyrir­tækis­ins fellur undir fyrir­tækja­flokk 2.1, álfram­leiðslu, sam­kvæmt reglu­gerð nr. 851/2002 um grænt bók­hald. Gildis­tími starfs­leyf­isins er til 1. des­ember 2026 og er Umhverfis­stofnun eftir­lits­aðili með starf­semi álfram­leiðsl­unnar. Heil­brigðis­eftir­lit Austur­lands hefur eftirlit með margs konar stoðstarfsemi innan álvers­lóðar, svo sem verkstæðum, spennistöð og starfs­manna­aðstöðu.

Helstu tækifæri fyrirtækisins á árinu 2018 eru að auka framleiðni með fjárfestingum og aukinni sjálf­virkni. Einnig er stefnt að því að auka hlut­fall virðis­aukandi vöru og vinna að lág­mörkun í losun gróður­húsa­loft­teg­unda auk þess að koma í veg fyrir aukna myndun úrgangs. Þá eru helstu áskoranir hár flutnings- og hráefnis­kostn­aður, sam­keppni á vinnu­markaði og fjarlægð frá mörk­uðum.

Starfsfólk Alcoa Fjarðaáls starfar á hverjum degi eftir gildum fyrirtækisins sem eru: Heilindi, árangur og umhyggja.

Framleiðsluferli

Framleiðslugeta Alcoa Fjarðaáls er allt að 360 þúsund tonn af áli á ári og er álið framleitt með rafgreiningu í 336 kerum. Framleiðsluferlið er sýnt á mynd 1.

Ál verður til með rafgreiningu í kerum í kerskála. Þau eru úr stáli en fóðruð með eldföstum einangrunarefnum. Í kerunum eru bakskaut úr kolefni og ofan í þau fer súrál, álflúoríð og forskaut úr kolefni. Forskautin eru flutt inn frá Mosjøen í Noregi en fest á gaffla í skautsmiðju Fjarðaáls. Yfirbygging rafgreiningarkersins heldur uppi forbökuðum forskautum, sjálfvirkum skurnbrjótum og möturum fyrir súrál og álflúoríð.

Í steypu­skála er kæli­vatn til fram­leiðslu endur­nýtt. Vatnið er hreinsað í vatns­hreinsi­virki og leitt aftur inn á vélar steypu­skálans. Ekkert vatn úr fram­leiðslu­ferlum er leitt í frárennsli.

Kerin eru almennt lokuð til að lág­marka hættuna á að gas­tegundir komist út í ker­skálana. Gasið er sogað burtu með afsogs­kerfi og leitt til þurr­hreinsi­virkja þar sem hreint súrál er notað til þess að hreinsa flúor úr gasinu áður það fer út í and­rúms­loftið um reyk­háf. Þurr­hreinsi­virkið hreinsar meira en 99,8% af heildar­flúor úr afsogs­lofti ker­anna. Flúorinn er endur­nýttur í raf­greiningar­ferlinu þegar hann fer með súr­álinu aftur ofan í kerin. Þegar ker eru opnuð er afsog aukið til að lágmarka það afgas sem sleppur út í kerskála og andrúmsloft.

Fljótandi ál er flutt úr kerskála í steypu­skála í sérstökum deiglum. Þar er álið mótað í endanlega afurð sem flutt er á markað í Evrópu. Steypu­skálinn er hann­aður með mikinn sveigjan­leika í huga svo hægt sé að bregð­ast skjótt við breyt­ingum á mark­aði. Á árinu 2017 skiptist fram­leiðslan upp í 62% ál­hleifa, 22% melmis­stangir og 14% vír. Tæp 2% fram­leiðsl­unnar var frábrigða­vara sem var seld til endur­bræðslu. Framleiðsla steypuskála er vottuð samkvæmt ISO 9001:2015 gæðastjórnunarkerfinu. Í steypu­skála er kæli­vatn til fram­leiðslu endur­nýtt. Vatnið er hreinsað í vatns­hreinsi­virki og leitt aftur inn á vélar steypu­skálans. Ekkert vatn úr fram­leiðslu­ferlum er leitt í frárennsli.

Næsti kafli