ALCOA FJARÐAÁL

UMHVERFI

MANNAUÐUR

SAMFÉLAG

EFNAHAGUR OG VIRÐISKEÐJA

MANNAUÐUR

MARKMIÐ

2017
2018
Alcoa Fjarðaál hljóti jafnlaunavottun á árinu 2017.
Alcoa Fjarðaál hlaut jafnlaunavottun í júní 2017
Alcoa Fjarðaál stefnir að vottun gagnvart staðli Alcoa um „Mannlega hegðun” , með lágmarkseinkunn 2,5 af 3 mögulegum.
Alcoa Fjarðaál stóðst vottun með einkunn 2,67
Í kjölfar #metoo bylgjunnar verður lögð áhersla á að bæta vinnu­staðar­menningu Fjarðaáls með jafn­réttismál í forgrunni. Halda á fundi fyrir alla starfsmenn til að ræða þennan málaflokk, setja upp aðgerðaáætlun og mæla með skoðanakönnun hve margir hafa orðið fyrir áreitni og/eða einelti á vinnustað.
Gera tilraun með breytingar á vaktakerfi með það að markmiði að auka ánægju starfsmanna með vaktakerfi um 5% frá árinu 2017.
Mæla með úttektum hvort viðeig­andi varnarlög séu til staðar til að tryggja öryggi starfsfólks við vinnu. Varnarlög verði til staðar í 95% tilfella.
Aukin árvekni og bættar skráningar vegna heilsutengdra einkenna, með vitundarvakningu og þjálfun allra starfsmanna.

Starfsmenn Fjarðaáls voru um 544 á árinu 2017. Þar af eru konur um 24% starfs­manna sem er hæsta hlut­fall sem þekkist innan álvera Alcoa. Í fram­kvæmda­stjórn Fjarðaáls sitja alls ellefu manns, þar af tvær konur. Starfs­menn fylgja ýmist Vinnu­staða­samningi Alcoa Fjarðaáls, AFLs og RSÍ, eða eru með einstakl­ings­bundna samn­inga þar sem launa­þróun fylgir samn­ingi VR við SA.

Samsetning vinnuafls

Fjarðaál hefur þá stefnu að út­vista þeim verk­efn­um í starf­sem­inni sem ekki til­heyra kjarna­starf­semi. Með þeim hætti rennir fyrir­tækið stoð­um undir upp­bygg­ingu og rekstur ann­arra fyrir­tækja og frek­ari atvinnu­upp­bygg­ingar á svæðinu. Sam­tals vinna 350 manns á vegum annarra fyrir­tækja í álverinu eða á álvers­svæðinu. Alls hafa því um níu hundruð manns atvinnu á álvers­svæðinu við Reyðar­fjörð. Verk­takar starfa meðal annars við rekstur mötu­neytis, þrif, verk­fræði­hönnun og fram­kvæmd fjár­festinga­verk­efna, starfs­manna­akstur, inn­kaup og lager­hald á rekstrar­vörum og vara­hlut­um, við vél­smíði og við­hald, hafnar­starf­semi og vöru­flutn­inga svo eitt­hvað sé nefnt.

Árið 2016 voru ráðnir inn 50 starfs­menn vegna breyt­inga á vakta­kerfi en þá var einum vakt­hóp bætt við þegar farið var úr 12 tíma vakta­kerfi í 8 tíma. Starfsmannavelta lækkaði milli ára og var 7,4% árið 2017 og því minna um nýráðn­ingar en oft áður. Fyrir nokkrum árum var starfsmannavelta mun hærri. Árið 2014 var starfsmannaveltan til dæmis 14%. Í vinnu­staðar­grein­ingu Gallup árið 2017 sögðust 94% starfs­manna Fjarðaáls vera á heildina litið ánægð með vinnu­staðinn. Þá sögðust 82% vakta­vinnu­starfs­manna hjá Fjarðaáli vera ánægð með nýja átta tíma vakta­kerfið og 83% þeirra sögðust ná að halda góðu jafn­vægi milli vinnu og einka­lífs. Þetta eru jákvæðari niður­stöður en áður. Hlut­fall kvenna hjá fyrir­tækinu árið 2017 var 24% saman­borið við 25% árið 2016 og fór því lítil­lega niður á við. En með því að halda áfram að hafa þennan mála­flokk í brenni­depli þá vonast stjórnendur til þess að talan stígi upp á við á ný, enda er það markmið fyrirtækisins að hafa kynjahlutföllin sem jöfnust.

Tafla 3

Búseta starfsmanna Fjarðaáls 2016 2017
Búseta í Fjarðabyggð. 61,7% 61,8%
Búseta í Fljótsdalshéraði 29,2% 29,8%
Búseta annarsstaðar á Austurlandi 3,6% 3,5%
Búseta annarsstaðar á landinu 5,4% 5,0%

Tafla 4

Endurkomuhlutfall eftir fæðingarorlof Karlar Konur Samtals
Fjöldi starfsmanna sem fóru í fæðingarorlof 48 12 60
Hlutfall af heildarfjölda sem fór í fæðingarorlof 12% 9% 17%
Fjöldi þeirra sem sneru aftur eftir fæðingarorlof 46 13 59
Hlutfall þeirra sem sneru aftur eftir fæðingarorlof 96% 108%* 98%

* Á árinu 2016 fóru fleiri konur í fæðingarorlof, eða 14% af heildarfjölda kvenna. Hluti þessa hóps sneri ekki aftur til vinnu fyrr en á árinu 2017, en einnig er talið að breytt vaktaskipulag hafi haft áhfrif á endurkomu eftir fæðingarorlof

Búseta nýrra starfsmanna Fjarðaráls

Nýráðning

Tafla 5

Starfsmannvelta eftir aldurshópum 2014 2017 2016 2017
18-20 0,46% 0,20%
21-25 3,14% 1,97% 2,20% 1,95%
26-30 3,17% 2,73% 2,18% 1,56%
31-35 1,57% 0,98% 0,97%
36-40 2,00% 1,55% 0,80% 0,78%
41-45 1,33% 1,43% 0,79% 0,98%
46-50 0,90% 0,21% 1,00% 0,58%
51-55 0,67% 0,22% 0,59% 0,20%
56-60 0,67% 0,54% 0,40%
61-66 0,22% 0,79% 0,39%
66- 0,20%
Samtals 13,90% 9,87% 9,14% 7,40%

Jafnréttismál

Félagið fylgir eftir aðgerðarbundinni jafnréttisáætlun og eru allir starfs­menn ábyrgir fyrir því að henni sé framfylgt. Jafnréttisstefna Alcoa Fjarðaáls er unnin út frá lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Alcoa Fjarðaál stefnir að því að helm­ingur starfs­manna fyrir­tækisins verði konur og tengir jafn­réttis­stefnu sína jafn­framt við gildin sem Alcoa starfar eftir um allan heim. Öll störf innan fyrir­tækis­ins eru opin báðum kynjum og skulu því hönnuð á þann veg að bæði kyn geti unnið þau á öruggan hátt. Báðir foreldrar eru hvattir til að huga að sam­ræmingu fjöl­skyldu­lífs og vinnu og axla jafna ábyrgð á upp­eldi og um­önnun barna sinna.

Hjá Alcoa Fjarðaáli eru konur um 24% starfs­manna sem er hæsta hlut­fall sem þekkist innan álvera Alcoa.

Hjá Alcoa Fjarðaáli er kynferðisleg og kynbundin áreitni og ein­elti ekki liðið og eru slík mál tekin föstum tökum. Í jafn­réttis­áætluninni eru til­greindir ábyrgðar­aðilar að úrbótum og endur­skoðun hennar. Fram­kvæmda­stjóri mann­auðs­mála ber ábyrgð á að jafn­réttis­áætlun sé fram­fylgt. Jafn­réttis­nefnd ber ábyrgð á eftirfylgni ef frávik verða.

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum er mælt árlega hjá fyrirtækinu.

Tafla 6

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum 2015 2016 2017
Stjórnendur 98% 98% 91%
Sérfræðingar 93% 95% 97%
Verkfræðingar 68% 79% 90%
Tæknar og sérmenntað starfsfólk 86% 89% 90%
Skrifstofufólk 104% 100% 100%
Þjónustu-, sölu og gæslustörf 82% 96% 93%
Iðnaðarmenn og sérhæft iðnverkfólk 86% 90% 81%
Véla og vélagæslufólk 92% 92% 95%

Alcoa Fjarðaál hlaut árið 2017 jafn­launa­vottun sam­kvæmt staðli IST 85:2012. Stað­allinn er unn­inn af hópi íslenskra sér­fræð­inga með það að mark­miði að fram­fylgja lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í lögunum er skýrt kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnu­rekanda skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn­verðmæt störf.

Fjarðaál var fyrsta stórfyrirtækið sem hlaut vottun á jafn­launa­staðli vel­ferðar­ráðu­neyt­isins og af því tilefni heim­sótti félags- og jafn­réttis­mála­ráð­herra, Þorsteinn Víglundsson, fyrir­tækið í lok júní 2017 og veitti stjórn­endum viður­kenningu á vott­uninni. Hann lét þau orð falla að það væri til fyrir­myndar að sjá hvernig Fjarðaál setur jafn­réttis­mál á oddinn og tekur þátt í að brjóta á bak aftur staðal­ímyndir á vinnu­markaði.

Starfs- og siðareglur

Starfs- og siðareglur Alcoa eru veg­vísir fyrir heilindi starfsmanna og góða viðskiptahætti. Markmiðið er að þær veiti starfsmönnum leiðsögn til að uppfylla viðmið félagsins hvað varðar góða viðskiptahætti sem snýr fyrst og fremst að því hvernig félagið vill stunda viðskipti í heiminum. Starfsreglurnar eru endur­skoðaðar árlega og fá starfs­menn markvissa fræðslu vegna þessa. Starfs­menn eru hvattir til að tilkynna meðal annars brot af ýmsu tagi, líkt og spillingu, brot á mann­réttindum, mis­munun eða ein­elti, brot á hug­verka­rétt­indum og mögu­legar öryggis­ógnanir. Nánari upp­lýs­ingar er að finna á vefsíðu félagsins.

Öryggi

Mikil áhersla er lögð á öryggi og heilsu starfs­fólks og verk­taka hjá Alcoa Fjarðaáli og eru þessi mál alltaf í for­gangi ásamt umhverfis­málum. Unnið er mark­visst að því að útrýma hættum, lág­marka mengun, efla heilsu og stuðla að öruggu vinnu­umhverfi. Sú hugmynda­fræði sem notast er við þegar kemur að því að greina hættur, meta aðstæður og fyrir­byggja frávik eða slys nefnist „Mann­leg hegðun“. Þessi nálgun hefur reynst vel og góður árangur hefur náðst í fækkun alvarlegra frávika. Starfsmenn beita einnig aðferðafræði sem kallast „stjórnun helstu áhættuþátta“ til að tryggja að réttu varnirnar gegn þekktum hættum séu ávallt til staðar. Mikil áhersla er lögð á rétt starfsfólks til að „Stoppa og leita sér hjálpar“ ef það upplifir óöryggi eða hefur ekki næga þekkingu á verkinu sem er verið að vinna. Þá er skylda að halda verkfund áður en verk hefst ef hætta á slysum er til talin vera til staðar.

Alcoa Fjarðaál fylgir stefnu sinni og móðurfélagsins í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum:

  • Markvisst er unnið að umbótum í starfsumhverfi til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks.
  • Öll slys og óhöpp eru skráð til að læra af þeim.
  • Félagið er vottað af OHSAS 18001 heilsu og öryggisstjórnunarkerfinu.
  • Allir starfsmenn fá grunnþjálfun í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum.

Hjá Alcoa Fjarðaáli eru starfandi 15 heilsu- og öryggis­nefndir en hlut­verk þeirra er að stuðla að bættu heil­brigði og öryggi á vinnu­stað. Tæp 10% starfs­manna taka virkan þátt í þessu nefndar­­starfi á vinnu­tíma. Nefndir vinna að ýmsum mál­efnum og koma að þjálfun s.s. í fallvörnum, „læsa, merkja, prófa“, „hættuleg efni“ svo einhver dæmi séu nefnd. Jafnframt stuðla nefndir að ýmsum endurbótum sem miða að því að gera vinnustaðinn öruggari með því að útrýma hættum og bæta vinnuaðstöðu og verklag.

Heilsa og velferð

Öflug velferðarþjónusta er rekin fyrir starfsfólk og nánustu ættingja þeirra þar sem boðið er upp á ýmiss­konar sér­fræði­þjónustu. Þjónustan felur í sér að starfs­menn og nánustu ættingjar þeirra geta leitað aðstoðar hjá breiðum hópi fagaðila vegna persónu­legra erfið­leika eða óvæntra áfalla. Þjónustan er starfs­mönnum að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda fyrirtækisins. Fullur trúnaður er viðhafður og upp­lýsingar ekki veittar til vinnu­staðar. Um er að ræða sex tíma á ári á sviði fjár­mála­ráð­gjafar, lög­fræði­aðstoðar, sál­fræði­ráð­gjafar, lífs­stíls­ráð­gjafar og svefn­með­ferðar á netinu svo dæmi séu tekin. Algengast hefur verið um að starfs­menn nýti sér lög­fræði- og sálfræði­þjónustu.

Hjá Fjarðaáli er starfrækt heilsueflingarnefnd, sem skipuleggur ýmsa hreyfiviðburði og heilsueflingu. Helstu viðburðir 2017:

  • Action hreyfiviðburðurinn: „Fjölskyldudagur í Hallormsstað“. Fjarðaál greiddi 300.000 krónur til góðgerðarmála vegna viðburðarins sem að þessu sinni rann til tækjakaupa á FSN.
  • Garpakeppnin: Í henni felst sú áskorun að taka þátt í sem flestum skipulögðum hreyfiviðburðum á Íslandi eða erlendis á tímabilinu 1. apríl til 30. september. Þrír starfs­menn fengu titilinn „Ofurgarpar“ en þeir tóku þátt í meira en 10 við­burðum. Í tengslum við keppn­ina var jafn­framt haldin ljós­mynda­keppni tengd útivist eða hreyfingu.
  • Blóðbankinn: Kom í apríl og ágúst, tvo daga í senn. Blóðgjafahópurinn stækkar ört en skráðar komur í báðum heim­sóknum voru 211 miðað við 153 árið 2016. Blóðsöfnun er opin öllum, bæði starfsmönnum og íbúum í nærsamfélagi.
  • Þyngdartapsáskorunin „Léttum okkur lífið“: 28 manns tóku þátt í 7 liðum og stóð áskorunin í 12 vikur. Samtals fuku 134,4 kg af þátt­takendum sem samsvarar fílsunga.
  • Fræðsluerindi: Hrönn Grímsdóttir lýðheilsu­fræð­ingur fjallaði um markmiðasetningu og venjur í erindi fyrir starfs­menn. Þá var boðið upp á fyrirlestur frá fjalla­garpinum John Snorra Sigurjónssyni þar sem hann sagði frá afreki sínu er hann kleif fjallið K2 fyrr á árinu. Sá viðburður var auglýstur opinn fyrir alla í miðlum á Austurlandi.

Heilsugæsla Fjarðaáls er opin alla virka daga frá 8–16 og er þjónustan þar fjölbreytt. Til dæmis komu 335 starfsmenn á árinu í reglubundnar heilsu­fars­skoðanir svo sem önd­unar- og heyrnar­mælingu, sem er liður í for­varnar­starfi gegn atvinnu­tengdum sjúkdómum. 514 komur voru í heilsumælingar og 139 manns mættu í inflúensu­bólu­setningu. Sérstök áhersla var lögð á það á árinu að bæta skráningu á stoð­kerfis­vanda­málum til að hægt sé að rótargreina vandamálin. Markmiðið er að koma í veg fyrir að starfsmenn þrói með sér álagstengda atvinnu­sjúkdóma og halda áfram að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

Hlunnindi fastráðinna starfsmanna

Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa aðgang að mötu­neyti á vinnu­staðnum, fríar rútu­ferðir til og frá vinnu og aðgengi að heilsu­gæslu. Starfs­mönnum býðst einnig að sækja um stuðn­ing við nám sem nýtist í starfi. Á árinu 2016 voru settir upp sex raf­tenglar á aðal­bíla­stæði starfs­manna­bygg­ingar þar sem að starfs­mönnum gefst kostur á að hlaða raf­bíla, á vinnu­tíma.

Starfsmenn geta sótt um styrki vegna líkams­ræktar, laser­aðgerða á augum, með­ferðar hjá nudd­ara, kyro­praktor, sjúkra­þjálfara, fóta­aðgerða­sér­fræð­ingi og vegna göngu­grein­ingar og inn­leggja. Ristil­speglun í for­varnar­skyni gegn krabba­meini fyrir 50 ára og eldri er að fullu greidd.

Frá árinu 2010 hefur starfsmönnum gefist kostur á að greiða mánaðar­legt framlag í Styrktarsjóð starfs­manna­félagsins Sóma. Þátttaka í sjóðnum er valfrjáls og greiðir Alcoa Fjarðaál mótframlag. Úthlutað er úr Styrktarsjóðnum til þeirra er í hann greiða vegna alvarlegra veikinda eða slysa í nánustu fjölskyldu.

Starfsþróun og endurmenntun

Alcoa Fjarðaál hlaut Mennta­verð­laun atvinnulífsins árið 2017, en þau eru veitt því fyrirtæki sem hefur skarað fram úr á sviði fræðslu- og mennta­mála. Verðlaunin eru veitt á Mennta­degi atvinnu­lífsins sem hefur verið haldinn síðan 2014. Mennta­dagur atvinnu­lífsins er sam­starfs­verk­efni Samorku, Samtaka ferða­þjón­ustunnar, Samtaka fjár­mála­fyrir­tækja, Samtaka fyrir­tækja í sjávar­útvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru að skipulögð fræðsla sé innan fyrir­tækisins, að stuðlað sé að mark­vissri menntun og fræðslu, að sem flest starfs­fólk taki virkan þátt og að hvatning til frekari þekkingar­öflunar sé til staðar. Lykillinn að því að hámarka og viðhalda þekkingu, hæfni og reynslu innan fyrir­tækisins er að allt starfs­fólk sé reiðu­búið að miðla sín á milli í gegnum fræðslu­starf og skipu­lag fyrir­tækisins. Þá býður fyrir­tækið fólki sem vill bæta við sig námi til að efla sig í starfi stuðn­ing hvort sem námið er á fram­halds­skóla- eða háskólastigi.

Starfsfólk Fjaraðaáls fær stuðning til náms vilji það efla sig í starfi.

Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfs­fólks á hverjum degi. Fyrir­tækið rekur stór­iðju­skóla sem er sam­starfs­verkefni Fjarða­áls, Austur­brúar og Verk­mennta­skóla Austur­lands en um 50 nem­endur stunda nám við skólann á hverjum tíma. Þann 15. desember 2017 útskrifuðust 24 nem­endur úr fram­halds­námi Stór­iðju­skóla Fjarðaáls og var það fjórði hóp­urinn sem lauk fram­halds­náminu. Frá því að skólinn tók til starfa haustið 2011 hafa 70 nem­endur útskrif­ast úr grunn­náminu og 53 úr fram­halds­náminu. Um þriðj­ungur iðnaðar­manna Fjarðaáls hefur lokið námi við skól­ann og það styttist í að sama hlut­fall náist fyrir fram­leiðslu­starfs­menn.

Starfsmenn eru boðaðir árlega í starfs­manna- og frammi­stöðu­sam­töl. Mark­miðið er að meta fræðslu­þörf þeirra og mögu­lega starfs­þróun byggða á styrk­leikum og áhuga. Samkvæmt vinnu­staða­könnun sem fram­kvæmd var í lok árs 2017 sögðust 69% starfs­manna hafa fengið fammi­stöðu­samtal á árinu.

Á árinu 2017 vörðu starfs­menn Fjarðaáls 58.300 klukku­stundum til þjálf­unar, sem var lækkun á milli ára um 9.605 stundir. Hver starfs­maður notaði um 6,6% af sínum vinnu­tíma til þjálf­unar árið 2017. Lækkun stafar fyrst og fremst af því að starfs­manna­velta hefur lækkað síðustu ár og því mun minni tími sem er notaður í nýliða­þjálfun, að auki stækkar sá kjarni afleysinga­starfs­manna á hverju ári sem hefur aukna hæfni, og því fer minni tími í þjálfun þess hóps.

Tafla 7

Þjálfun starfsmanna 2015 2016 2017
Fjöldi vinnustunda 60.470 67.905 58.300
Hlutfall af vinnutíma 7,3% 7,4% 6,6%

Öllum starfsmönnum Alcoa Fjarða­áls ber skylda að sækja námskeið a.m.k. einu sinni á ári til að læra að bera kennsl á spillingu. Námskeiðin eru tekin í gegnum netforritið „Alcoa Learn“ og þátttaka starfsmanna er skráð. Alcoa Fjarðaál hefur aldrei verið sektað vegna brota á lögum eða reglugerðum.

Slys og frávik gagnvart heilsu og öryggi

Næstum-því-slys, slys og frávik gagn­vart heilsu og öryggi eru skráð inn í atvika­skrán­inga­kerfi og til­kynnt í sam­ræmi við gild­andi lög og reglu­gerðir. Gerðar eru rann­sóknir og settar upp fyrir­byggj­andi aðgerðir til þess að sams­konar atvik endur­taki sig ekki. Á síðast­liðnu ári voru skráð 12 „næstum því slys“* og eitt fjarveru­slys. Fjöldi tilkynntra vinnu­slysa á hverjar 200 þús. vinnu­stundir voru 0,23. Engin bana­slys hafa orðið hjá Alcoa Fjarðaáli frá upphafi reksturs.

Tafla 8

Slys og slysatíðni 2015 2016 2017
Fjarveruslys 1 2 1
Næstum-því-slys - 18 12
Tíðni fjarveruslysa 0,17 0,44 0,23
Tíðni meðferðaslysa 1,59 2,64 2,71
Tíðni allra slysa 7,43 17,63 14,26
Tíðni fjarveru, og vinnutakmarkana 0,35 0,44 0,9
* „Næstum því slys“ eru byggð á upplýsingum vegna óhappa sem urðu og hefðu hugsanlega getað valdið varanlegri örorku eða banaslysi

Næsti kafli

Fyrri kafli