Alcoa Fjarðaál

Umhverfi

Mannauður

Samfélag

Efnahagur og virðiskeðja

Samfélagsskýrsla 2018 Samfélagsskýrsla 2017 Samfélagsskýrsla 2016

SAMFÉLAGSMARKMIÐ – ÁRANGUR

2017
2018
Alcoa Fjarðaál hljóti jafnlaunavottun á árinu 2017.
Alcoa Fjarðaál hlaut jafnlaunavottun í júní 2017
Alcoa Fjarðaál stefnir að vottun gagnvart staðli Alcoa um „Mannlega hegðun” , með lágmarkseinkunn 2,5 af 3 mögulegum.
Alcoa Fjarðaál stóðst vottun með einkunn 2,67
Í kjölfar #metoo bylgjunnar verður lögð áhersla á að bæta vinnu­staðar­menningu Fjarðaáls með jafn­réttismál í forgrunni.
Haldnir voru fundir um jafnrétti og vinnustaðarmenningu. Viðhorf starfsfólks var kannað og skrifað undir vinnustaðarsáttmála til að tryggja góða vinnustaðarmenningu. Þessu var svo fylgt eftir á starfsmannafundum á markvissan hátt með umbætur að leiðarljósi.
Gera tilraun með breytingar á vaktakerfi með það að markmiði að auka ánægju starfsmanna með vaktakerfi um 5% frá árinu 2017.
Vegna gagnrýni á framkvæmd tilraunar var ákveðið að allir vakthópar fengju að taka þátt í nýrri tilraun í byrjun árs 2019. Niðurstöðu er að vænta á árinu 2019.
Mæla hvort viðeig­andi varnarlög séu til staðar til að tryggja öryggi starfsfólks. Varnarlög verði til staðar í 95% tilfella.
Góður árangur hefur áunnist í öryggismálum með innleiðingu varnarlaga við áhættusöm störf. Á síðasta ári var mikilvægasta varnarlagið til staðar í 96% tilfella.
Aukin árvekni og bættar skráningar vegna heilsutengdra einkenna, með vitundarvakningu og þjálfun allra starfsmanna.
Atvikaskráningakerfi Fjarðaáls var uppfært á árinu til þess að geta betur fylgt eftir heilsutengdum frávikum, og fjöldi slíkra skráninga jókst eftir vitundarvakningu og þjálfun starfsmanna.

Starfsmenn Fjarðaáls voru um 538 á árinu 2018. Þar af eru konur um 22% starfsmanna sem er hæsta hlutfall sem þekkist innan álvera Alcoa. Í framkvæmdastjórn Fjarðaáls sitja alls ellefu manns, þar af þrjár konur. Starfsmenn fylgja ýmist Vinnustaðasamningi Alcoa Fjarðaáls, AFLs og RSÍ, eða eru með einstaklingsbundna samninga þar sem launaþróun fylgir samningi VR við SA.

Samsetning vinnuafls eftir störfum

Samsetning vinnuafls eftir aldri

Fjarðaál hefur þá stefnu að útvista þeim verkefnum í starfseminni sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi. Með þeim hætti rennir fyrirtækið stoðum undir uppbyggingu og rekstur annarra fyrirtækja og frekari atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Samtals vinna um 300 manns á vegum annarra fyrirtækja í álverinu eða á álverssvæðinu. Alls hafa því ríflega 800 manns atvinnu á álverssvæðinu við Reyðarfjörð. Verktakar starfa meðal annars við rekstur mötuneytis, þrif, verkfræðihönnun og framkvæmd fjárfestingaverkefna, starfsmannaakstur, innkaup og lagerhald á rekstrarvörum og varahlutum, við vélsmíði og viðhald, hafnarstarfsemi og vöruflutninga svo eitthvað sé nefnt.

Tafla 4

Búseta starfsmanna Fjarðaáls 2017 2018
Búseta í Fjarðabyggð. 61,8% 62,6%
Búseta í Fljótsdalshéraði 29,8% 29,7%
Búseta annarsstaðar á Austurlandi 3,5% 3,7%
Búseta annarsstaðar á landinu 5,0% 3,9%

Tafla 5

Nýráðningar 2016 2017 2018
Fastráðningar 110 29 24
Tímabundnar ráðningar 41 23 15
Ráðningar sumarstarfsmanna 113 110 113
Íhlaupastarfsmenn í tímavinnu 59 48 55

Búseta nýráðinna starfsmanna Fjarðaáls 2016 2017 2018
Búseta í Fjarðabyggð 70% 74% 75%
Búseta á Fljótsdalshéraði 22% 19% 17%
Bústa annarsstaðar á Austurlandi 5% 3% 0%
Búseta annarsstaðar á landinu 3% 3% 8%

Starfsánægja

Árlega gerir Gallup vinnustaðargreiningu meðal starfsfólks Fjarðaáls þar sem starfsánægja er meðal annars könnuð. Árið 2018 var meðaleinkunn 3,99 í spurningu um ánægju starfsmanna með vinnustaðinn. Mælt var á kvarðanum 1-5. Lækkun milli ára er 0,41. Ekki er hægt að gefa einhlíta skýringu á þessari lækkun, en meðal þess sem getur spilað inn í er erfitt rekstrarár. Í byrjun árs 2019 voru niðurstöður könnunar kynntar fyrir starfsfólki og settar upp aðgerðir til að auka starfsánægju og helgun.

Starfsmannavelta

Starfsmannavelta hélt áfram að lækka á milli ára og var rétt undir 7% árið 2018. Hlutfall kvenna hjá fyrir tækinu árið 2018 var 22% samanborið við 24% árið 2017 og fór því lítillega niður á við. En með því að halda áfram að hafa þennan málaflokk í brennidepli vonast stjórnendur til þess að talan stígi upp á við á ný, enda er það markmið fyrirtækisins að hafa kynjahlutföllin sem jöfnust. Hlutfall karla og kvenna er jafnara þegar litið er til sumarstarfsmanna.

Tafla 6

Starfsmannvelta eftir aldurshópum 2014 2017 2016 2017
18-20 0,46% 0,20%
21-25 3,14% 1,97% 2,20% 1,95%
26-30 3,17% 2,73% 2,18% 1,56%
31-35 1,57% 0,98% 0,97%
36-40 2,00% 1,55% 0,80% 0,78%
41-45 1,33% 1,43% 0,79% 0,98%
46-50 0,90% 0,21% 1,00% 0,58%
51-55 0,67% 0,22% 0,59% 0,20%
56-60 0,67% 0,54% 0,40%
61-66 0,22% 0,79% 0,39%
66- 0,20%
Samtals 13,90% 9,87% 9,14% 7,40%

Jafnréttismál

Jafnréttisstefna Alcoa Fjarðaáls er unnin út frá lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Alcoa Fjarðaál stefnir að því að helmingur starfsmanna fyrirtækisins verði konur og tengir jafnréttisstefnu sína jafnframt við gildin sem Alcoa starfar eftir um allan heim. Öll störf innan fyrirtækisins eru auglýst fyrir bæði kyn því hönnuð á þann veg að bæði kyn geti unnið þau á öruggan hátt. Báðir foreldrar eru hvattir til að huga að samræmingu fjölskyldulífs og vinnu og axla jafna ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna.

Markmiðið er að ná að eyða öllu því sem kallast einelti eða áreitni á vinnustaðnum. Fyrsta skrefið í þá átt var að starfsmenn gerðu með sér vinnustaðasáttmála sem þeir rituðu nafn sitt á.

Hjá Alcoa Fjarðaáli er kynferðisleg og kynbundin áreitni og einelti ekki liðið og eru slík mál tekin föstum tökum. Í jafnréttisáætluninni eru tilgreindir ábyrgðaraðilar að úrbótum og endurskoðun hennar. Framkvæmdastjóri mannauðsmála ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun sé framfylgt. Jafnréttisnefnd ber ábyrgð á eftirfylgni jafnréttisstefnu og frávika frá henni.

Vinnustaðarmenning
Eitt af markmiðum Fjarðaáls fyrir árið 2018 var tengt vinnustaðarmenningu og mótaðist það af #metoo umræðunni sem spratt upp á samfélagsmiðlum síðla árs 2017. Stjórnendur Fjarðaáls tóku þá ákvörðun í lok árs 2017 að bjóða upp á kynjaskipta fundi í upphafi árs 2018 til að fá sögur kvenna sem starfa í fyrirtækinu upp á yfirborðið en ekki hafði borið á því að konur í fyrirtækinu hefðu stofnað hóp á samfélagsmiðlum til að ræða þessi mál. Þess vegna var ákveðið að bjóða upp á vettvang fyrir samtalið.

Alls voru haldnir 15 fundir í febrúar og mars 2018 undir merkjum #metoo. Fundirnir voru kynjaskiptir þar sem Magnús Orri Schram leiddi umræðuna á karlafundunum og bauð upp á kynjafræðslu í svokölluðum „barbershop“ stíl og á kvennafundunum fengum við til liðs við okkur Kolbrúnu Baldursdóttir sálfræðing til að leiða fundina og veita stuðning. Við fundum tækifæri á fundunum til að gera betur í þessum málaflokki og það var öllum í fyrirtækinu, bæði stjórnendum og starfmönnum hollt að taka þetta samtal. Sérstakur fundur var haldin fyrir stjórnendur Fjarðaáls þar sem þeir fengu fræðslu frá Magnúsi Orra og auk þess var farið yfir helstu niðurstöður fundanna sem á undan höfðu verið. Til að leggja betur mat á umfang bæði eineltis og áreitnis á vinnustaðnum var lögð fyrir könnun á vinnustaðnum í samvinnu við Gallup og voru helstu niðurstöður kynntar starfsmönnum á starfsmannafundum haustið 2018. Markmiðið er að ná að eyða öllu því sem kallast einelti eða áreitni á vinnustaðnum. Fyrsta skrefið í þá átt var að starfsmenn gerðu með sér vinnustaðasáttmála sem þeir hafa ritað nafn sitt á en hann er eftirfarandi:

Við starfsmenn Alcoa Fjarðaáls gerum með okkur sáttmála um góða vinnustaðarmenningu þar sem heilindi, árangur og umhyggja eru höfð að leiðarljósi. Við stöndum vörð um jafnrétti á vinnustaðnum og líðum ekki mismunun, einelti, áreitni eða ofbeldi.

Við sýnum hvert öðru vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og metum framlag allra að verðleikum. Þannig myndum við gagnkvæmt traust og sköpum sálrænt öryggi fyrir alla.

Við þorum að ræða saman um fram­komu sem okkur mislíkar og hjálpumst að við að setja mörk í samskiptum. Við erum til staðar hvert fyrir annað, tilbúin að hlusta og veita stuðning. Við skiljum að upp­lifun einstaklinga er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.

Við leiðum ekki hjá okkur óheilbrigð samskipti og bregðumst strax við þegar brotið er gegn vinnufélögum okkar. Við sýnum hugrekki og stígum fram til stuðnings þeim sem brotið er gegn. Við vitum að meðvirkni með geranda getur gert illt verra. Í framhaldi af þessari vinnu var stjórnendum Fjarðaáls boðið á kynjafræðinámskeið hjá Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur kennara. Markmiðið með námskeiðinu var tvíþætt, að fræða hópinn um stöðu jafnréttismála á Íslandi og gera fólk betur undirbúið fyrir að glíma við erfið starfmannamál.

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum
Tafla 7 sýnir laun kvenna sem hlutfall af launum karla, greind niður á starfsflokka í fyrirtækinu. Við launaákvarðanir sérfræðinga er tekið tillit til reynslu, menntunar og hæfni auk þess sem laun eru borin saman við það sem gengur og gerist á markaði með þátttöku í launakönnun. Launaákvarðanir starfsfólks sem starfar í framleiðslu og iðnaði eru bundnar í kjarasamning, en mikilvægir þættir í þróun launa þessara hópa er starfsaldur og vinnufyrirkomulag. Þá getur það haft mikil áhrif til breytinga ef fáar konur eru í ákveðnum hópum eða hafa styttri starfsaldur t.d. í hópi iðnaðarmanna, tækna og sérmenntaðs starfsfólks. Engin kona er á vöktum í iðnaðarmannahópnum og það hefur áhrif á hlutföllin. Í hópnum skrifstofufólk eru nánast eingöngu konur og þær eru með hærri laun en þeir karlar sem eru hluti af hópnum.

Tafla 7

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum 2016 2017 2018
Stjórnendur 98% 91% 92%
Sérfræðingar 95% 97% 95%
Verkfræðingar 79% 90% 88%
Tæknar og sérmenntað starfsfólk 89% 90% 80%
Skrifstofufólk 100% 100% 135%
Þjónustu-, sölu og gæslustörf 96% 93% 96%
Iðnaðarmenn og sérhæft iðnverkfólk 90% 81% 83%
Véla og vélagæslufólk 92% 95% 96%

Jafnlaunavottun
Sumarið 2017 hlaut Fjarðaál vottun samkvæmt jafnlaunastaðli vel­ferðar­­ráðu­neyt­isins og var fyrsta stórfyrirtækið hér á landi til að hljóta þá vottun. Síðan þá hafa farið fram þrjár svokallaðar viðhaldsúttektir á staðlinum sem Fjarðaál hefur staðist með prýði. Úttektirnar staðfesta að unnið er samkvæmt skjalfestu verklagi. Launagreining í viðhaldsúttekt árið 2018 sýndi að kynbundinn launamunur var 1,4% körlum í hag sem er vel undir skekkjumörkum þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við launamun undir 5%. Í launagreiningunni sem var gerð 2017 var launamunurinn 0,3% konum í hag.

Nánar um jafnréttismál

Starfs- og siðareglur

Starfs- og siðareglur Alcoa eru vegvísir fyrir heilindi starfsmanna og góða viðskiptahætti. Markmiðið er að þær veiti starfsmönnum leiðsögn til að uppfylla viðmið félagsins hvað varðar góða viðskiptahætti sem snýr fyrst og fremst að því hvernig félagið vill stunda viðskipti í heiminum. Starfsreglurnar eru endurskoðaðar árlega og fá starfsmenn markvissa fræðslu vegna þessa. Starfsmenn eru hvattir til að tilkynna meðal annars brot af ýmsu tagi, líkt og spillingu, brot á mannréttindum, mismunun eða einelti, brot á hugverkaréttindum og mögulegar öryggisógnanir. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Fjarðaáls.

Öryggi

Mikil áhersla er lögð á öryggi og heilsu starfsfólks og verktaka hjá Alcoa Fjarðaáli og eru þessi mál í forgangi ásamt umhverfismálum. Unnið er markvisst að því að lágmarka hættu á slysum, lágmarka mengun, efla heilsu og stuðla að öruggu vinnuumhverfi. Sú hugmyndafræði sem notast er við þegar kemur að því að greina hættur, meta aðstæður og fyrirbyggja frávik eða slys nefnist „Mannleg hegðun“. Þessi nálgun hefur reynst vel og góður árangur hefur náðst í fækkun alvarlegra frávika. Starfsmenn beita einnig aðferðafræði sem kallast „stjórnun helstu áhættuþátta“ til að tryggja að réttu varnirnar gegn þekktum hættum séu ávallt til staðar. Mikil áhersla er lögð á rétt starfsfólks til að „Stoppa og leita sér hjálpar“ ef það upplifir óöryggi eða hefur ekki næga þekkingu á verkinu sem er verið að vinna. Þá er skylda að halda verkfund áður en verk hefst ef hætta á slysum er til talin vera til staðar.

Alcoa Fjarðaál fylgir stefnu sinni og móðurfélagsins í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum:

  • Markvisst er unnið að umbótum í starfsumhverfi til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks.
  • Öll slys og óhöpp eru skráð til að læra af þeim.
  • Félagið er vottað af OHSAS 18001 heilsu- og öryggisstjórnunarkerfinu.
  • Allir starfsmenn fá grunnþjálfun í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum.

Hjá Alcoa Fjarðaáli eru starfandi 15 heilsu- og öryggisnefndir en hlutverk þeirra er að stuðla að bættu heilbrigði og öryggi á vinnustað. Tæp 10% starfsmanna taka virkan þátt í þessu nefndarstarfi á vinnutíma. Nefndir vinna að ýmsum málefnum og koma að þjálfun svo sem í fallvörnum, „læsa, merkja, prófa“, „hættuleg efni“ svo einhver dæmi séu nefnd. Jafnframt stuðla nefndir að ýmsum endurbótum sem miða að því að gera vinnustaðinn öruggari með því að útrýma hættum og bæta vinnuaðstöðu og verklag.

Slys og frávik gagnvart heilsu og öryggi
Næstum-því-slys*, slys og frávik gagnvart heilsu og öryggi eru skráð inn í atvikaskráningakerfi og tilkynnt í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Framkvæmdar eru rótargreiningar og fyrirbyggjandi aðgerðir innleiddar til þess að samskonar atvik endurtaki sig ekki. Á síðastliðnu ári voru skráð 13 „næstum-því-slys“og ekkert fjarveruslys. Fjöldi tilkynntra fjarveruslysa á hverjar 200 þús. vinnustundir voru engin. Engin banaslys hafa orðið hjá Alcoa Fjarðaáli frá upphafi reksturs.

* „Næstum-því-slys“ eru byggð á upplýsingum vegna óhappa sem urðu og hefðu hugsanlega getað valdið varanlegri örorku eða banaslysi.

Nánar um öryggi

Heilsa og velferð

Fjarðaáli er annt um heilsu starfsmanna sinna og leggur mikla vinnu í að fyrirbyggja atvinnu­tengda sjúk­­dóma eins og t.d. öndunarfæra­sjúk­dóma, heyrnarskerð­ingu, húð­vanda­mál og langvarandi stoðkerfissjúkdóma.

Á hverju ári er framkvæmdur mikill fjöldi mælinga á t.d. hávaða eða mengun í andrúmslofti starfsmanna, til þess að fylgjast með vinnuumhverfinu og tryggja að starfsmenn séu varðir á þann besta hátt sem völ er á. Þessar mælingar stýra heilsufarsskoðunum starfsmanna sem fara fram á heilsugæslu Fjarðaáls, hvaða varnir starfsmenn þurfa að nota, ásamt umbótastarfi sem hefur það að markmiði að bæta vinnu­umhverfi starfsmanna. Á árinu 2019 verður áhersla á markvissari eftirfylgni með óásættanlegum heilsuhættum með það að markmiði að bæta jafnt og þétt vinnuumhverfi starfsmanna.

Velferðarþjónusta
Öflug velferðarþjónusta er rekin fyrir starfsfólk og nánustu ættingja þeirra þar sem boðið er upp á ýmiss­konar sér­fræði­þjónustu. Þjónustan felur í sér að starfs­menn og nánustu ættingjar þeirra geta leitað aðstoðar hjá breiðum hópi fagaðila vegna persónu­legra erfið­leika eða óvæntra áfalla. Þjónustan er starfs­mönnum að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda fyrirtækisins. Fullur trúnaður er viðhafður og upp­lýsingar ekki veittar til vinnu­staðar. Um er að ræða sex tíma á ári á sviði fjár­mála­ráð­gjafar, lög­fræði­aðstoðar, sál­fræði­ráð­gjafar, lífs­stíls­ráð­gjafar og svefn­með­ferðar á netinu svo dæmi séu tekin. Algengast hefur verið um að starfs­menn nýti sér lög­fræði- og sálfræði­þjónustu.

Heilsuefling
Hjá Fjarðaáli er starfrækt heilsueflingarnefnd, sem skipuleggur ýmsa hreyfiviðburði og heilsueflingu. Helstu viðburðir 2018 voru eftirfarandi:

  • Heilsuleikar Alcoa Fjarðaáls voru haldnir yfir þriggja vikna tímabil í mars. Með leikunum hvatti nefndin starfsfólk til að auka hreyfingu, bæta mataræði og stjórna streitu með skemmtilegu og leikjavæddu smáforriti.
  • Heilsueflingarnefndin stóð fyrir tveimur svokölluðum “Action” hreyfiviðburðum á árinu en þeir felast í að hópur starfsfólks hreyfir sig saman í þágu góðs málefnis. Sá fyrri var fjölskylduganga að Strútsfossi í Suðurdal og sá seinni var krefjandi ganga upp á Snæfell. Fjarðaál greiddi 300.000 krónur til góðgerðamála vegna viðburðanna sem að þessu sinni runnu til tækjakaupa á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað (FSN) og til Stígamóta, vegna verkefnisins „Stígamót á staðinn“. Alls tóku 45 einstaklingar þátt í Action hreyfiviðburðum á árinu.
  • Blóðbankinn kom í apríl og september, tvo daga í senn. Blóðgjafahópurinn er stór og skráðar komur í báðum heimsóknum voru 200. Blóðsöfnun er opin öllum, bæði starfsmönnum og íbúum í nærsamfélagi.

Heilsugæsla
Heilsugæsla Fjarðaáls er opin alla virka daga frá 8-16 og er þjónustan þar fjölbreytt. Til dæmis komu rúmlega 200 starfsmenn á árinu í reglubundnar heilsufarsskoðanir svo sem öndunar- og heyrnarmælingu, sem er liður í forvarnarstarfi gegn atvinnutengdum sjúkdómum. Um 500 heimsóknir voru skráðar í ýmsar heilsumælingar og um 110 starfsmenn mættu í inflúensubólusetningu.

Á seinni hluta árs 2018 var sérstök áhersla lögð á vinnutengd öndunarfæravandamál. Þetta var gert í samvinnu við trúnaðarlækni og sérfræðing í vinnuvernd hjá UHÖ teymi Fjarðaáls. Markmiðið er að koma í veg fyrir að starfsmenn þrói með sér öndunarfæravandamál og veita einstaklingum með slík einkenni aðstoð og ráðgjöf. Haldið verður áfram að vinna markvisst með þetta.

Nánar um heilsu og velferð

Hlunnindi fastráðinna starfsmanna

Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa aðgang að mötuneyti og heilsugæslu á vinnustaðnum, og fá fríar rútuferðir til og frá vinnu. Starfsmönnum býðst einnig að sækja um stuðning við nám sem nýtist í starfi. Sex raftenglar eru á aðalbílastæði starfsmannabyggingar þar sem starfsmönnum gefst kostur á að hlaða rafbíla á vinnutíma. Tenglarnir hafa verið vel nýttir frá því að þeir voru settir upp og merkja má aukningu í notkun þeirra milli ára. Þá gefur fyrirtækið starfsmönnum sínum veglega jólagjöf á hverju ári sem samanstendur af matarpakka og óvæntri gjöf.

Starfsmenn geta sótt um styrki vegna líkamsræktar, gleraugnakaupa, laseraðgerða á augum, meðferðar hjá hnykklækni, sjúkraþjálfara, nuddara, fótaaðgerðasérfræðingi og vegna göngugreiningar og innleggja. Ristilspeglun í forvarnarskyni gegn krabbameini fyrir 50 ára og eldri er að fullu greidd.

Frá árinu 2010 hefur starfsmönnum gefist kostur á að greiða mánaðarlegt framlag í Styrktarsjóð starfsmannafélagsins Sóma. Þátttaka í sjóðnum er valfrjáls og greiðir Alcoa Fjarðaál mótframlag. Úthlutað er úr Styrktarsjóðnum til þeirra er í hann greiða vegna alvarlegra veikinda eða slysa í nánustu fjölskyldu.

Starfsþróun og endurmenntun

Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks Alcoa Fjarðaáls á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50-60 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma. Frá því að skólinn tók til starfa haustið 2011 hafa 100 nemendur útskrifast úr grunnnáminu og 53 úr framhaldsnáminu. Á árinu 2018 jókst hlutfall kvenna í hópi stóriðjuskólanema upp í 18% sem helgast af því að starfsaldur kvenna hjá Fjarðaáli er að lengjast en þriggja ára starfsaldur er eitt af inntökuskilyrðunum.

Á árinu 2018 vörðu starfsmenn Fjarðaáls 80.000 klst. til þjálfunar sem er talsverð aukning á milli ára.

Tekin voru síðustu skref í innleiðingu hlutverkastýrðra teyma á árinu 2018 sem fólst í því að leiðtogar í framleiðslu hættu á næturvöktum. Innleiðing hlutverkastýrðra teyma hófst í skautsmiðju og á viðhaldsvakt, en síðan í kerskála og steypuskála. Undirbúningur fyrir innleiðinguna krafðist yfirgripsmikillar vinnu við skilgreiningu á aðal- og aukahlutverkum, hæfnitöflum og tengdum verklagsreglum. Á árinu 2018 var mikil áhersla á þjálfun aukahlutverka sem eru þau hlutverk sem styðja við framleiðslu með áherslu á öryggis- og heilsumál, umhverfismál, umgengni, viðhald, þjálfun, mönnun, gæði og flæði framleiðslu. Leiðtogar og stjórnendur voru þjálfaðir sérstaklega til þess að takast á við breyttar áherslur í sínum hlutverkum.

Á árinu 2018 vörðu starfsmenn Fjarðaáls 80.000 klukkustundum til þjálfunar, sem var talsverð aukning á milli ára. Hver starfsmaður notaði um 9% af sínum vinnutíma til þjálfunar á árinu. Aukningin stafar fyrst og fremst af fækkun vinnustunda og bættri skráningu á netþjálfun sem færist sífellt í aukana.

Vetnisrafallinn – verkefni nemenda stóriðjuskóla
Í Stóriðjuskólanum vinna nemendur lokaverkefni sem eiga að taka mið af því að bæta rekstur, umhverfis-, heilsu- eða öryggismál hjá Fjarðaáli. Mörg þessara verkefna hafa skilað frábærum árangri og eru mikilvæg fyrir fyrirtækið. Dæmi um áhugavert verkefni frá haustinu 2018 er tilraun með að keyra vetnisrafal í kerskála, til að kanna möguleikann á að nota slíka rafala til að knýja farartæki sem í dag eru knúin áfram af dísilolíu. Tilraunin gengur út á að kanna áhrif segulsviðs og gastegunda á búnaðinn, en þessir þættir geta haft truflandi áhrif á ýmiss konar búnað og farartæki. Við bruna vetnis myndast einungis vatnsgufa og væri hægt að framleiða vetnið á staðnum með raforku.

Vetnisrafallinn knýr nú ljóskastara og hefur tilraunin gefið góða raun. Verkefnið fellur vel að nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og er Fjarðaál stolt af því að styðja við þessa tilraun þannig að hægt sé að leggja mat á mismunandi möguleika við orkuskipti tækja og búnaðar. Tilraunin stendur enn yfir og verður fróðlegt að sjá hverju hún skilar.Jeff Clemmensen, starfsmaður umhverfistækniteymis og einn forsprakka verkefnis um vetnisrafal sýnir virkni búnaðarins.

Nánar um starfsþróun og endurmenntun

Næsti kafli

Fyrri kafli