Alcoa Fjarðaál

Umhverfi

Mannauður

Samfélag

Efnahagur og virðiskeðja

Samfélagsskýrsla 2020 Samfélagsskýrsla 2019 Samfélagsskýrsla 2018 Samfélagsskýrsla 2017 Samfélagsskýrsla 2016

SAMFÉLAGSMARKMIÐ – ÁRANGUR

2018
2019
Í kjölfar #metoo bylgjunnar verður lögð áhersla á að bæta vinnu­staðar­menningu Fjarðaáls með jafn­réttismál í forgrunni.
Haldnir voru fundir um jafnrétti og vinnustaðarmenningu. Viðhorf starfsfólks var kannað og skrifað undir vinnustaðarsáttmála til að tryggja góða vinnustaðarmenningu. Þessu var svo fylgt eftir á starfsmannafundum á markvissan hátt með umbætur að leiðarljósi.
Gera tilraun með breytingar á vaktakerfi með það að markmiði að auka ánægju starfsmanna með vaktakerfi um 5% frá árinu 2017.
Vegna gagnrýni á framkvæmd tilraunar var ákveðið að allir vakthópar fengju að taka þátt í nýrri tilraun í byrjun árs 2019. Niðurstöðu er að vænta á árinu 2019.
Mæla hvort viðeig­andi varnarlög séu til staðar til að tryggja öryggi starfsfólks. Varnarlög verði til staðar í 95% tilfella.
Góður árangur hefur áunnist í öryggismálum með innleiðingu varnarlaga við áhættusöm störf. Á síðasta ári var mikilvægasta varnarlagið til staðar í 96% tilfella.
Aukin árvekni og bættar skráningar vegna heilsutengdra einkenna, með vitundarvakningu og þjálfun allra starfsmanna.
Atvikaskráningakerfi Fjarðaáls var uppfært á árinu til þess að geta betur fylgt eftir heilsutengdum frávikum, og fjöldi slíkra skráninga jókst eftir vitundarvakningu og þjálfun starfsmanna.
Gera samfélagsábyrgð að hluta kennslu í öllum fögum sem kennd eru á vegum fyrirtæksins í Stóriðjuskóla.
Samfélagsábyrgð er hluti af mörgum fögum í Stóriðjuskólanum, ekki síst umhverfiskennslunni. Árið 2020 stendur til að endurskoða skipulag skólans og þá verður þetta skoðað betur.
Innleiddur verður sérstakur hugbúnaður til að styðja enn frekar við innleiðingu á mikilvægasta varnarlaginu.
Fjarðaál innleiddi á árinu 2019 hugbúnaðinn Forwood sem er sérstaklega hannaður til staðfestingar á því að varnarlög séu til staðar
Að mikilvægasta varnarlagið (MV) verði til staðar í 95% tilvika í úttektum og tryggt að tengsl á milli slysa og tilvistar MV verði greind.
Mikilvægasta varnarlagið var til staðar í yfir 95% úttekta sem gerðar voru í doforms. Þessar úttektir verða framvegis gerðar í Forwood hugbúnaðinum með öðrum hætti og þá verður markmiðum breytt.
Að mældur styrkur óæskilegra lofttegunda í vinnuumhverfi í kerskála lækki um 15% miðað við mælingar á árinu 2018.
Gekk ekki eftir enda erfitt rekstrarár
Bjóða öllum starfsmönnum Fjarðaáls upp á fræðslu um ómeðvitaða fordóma
Staðið, sjá nánar í undir Jafnréttismál

Starfsmenn Fjarðaáls voru um 520 á árinu 2019. Þar af voru konur 23,5% starfsmanna sem er hæsta hlutfall sem þekkist innan Alcoa samsteypunnar. Í framkvæmdastjórn Fjarðaáls sitja alls ellefu manns, þar af þrjár konur. Starfsmenn fylgja ýmist vinnustaðarsamningi Alcoa Fjarðaáls, AFLs og RSÍ, eða eru með einstaklingsbundna samninga þar sem launaþróun fylgir samningi VR við SA.

Samsetning vinnuafls eftir störfum

Samsetning vinnuafls eftir aldri

Fjarðaál hefur þá stefnu að útvista þeim verkefnum í starfseminni sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi. Með þeim hætti rennir fyrirtækið stoðum undir uppbyggingu og rekstur annarra fyrirtækja á svæðinu og hefur þannig jákvæð áhrif á frekari atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Samtals vinna um 250 manns á vegum annarra fyrirtækja í álverinu eða á álverssvæðinu. Alls hafa því um 800 manns atvinnu á álverssvæðinu við Reyðarfjörð. Verktakar hjá Fjarðaáli starfa meðal annars við rekstur mötuneytis, þrif, verkfræðihönnun og framkvæmd fjárfestingarverkefna, starfsmannaakstur, innkaup og lagerhald á rekstrarvörum og varahlutum, við vélsmíði og viðhald, hafnarstarfsemi og vöruflutninga svo eitthvað sé nefnt. Þessi starfsemi verktaka endurspeglar breytt starfssvið sem hefur jákvæð áhrif á nýsköpun og þróun á svæðinu. Mörg ný fyrirtæki hafa sprottið upp á svæðinu í gegnum árin með því að þjónusta starfsemi álversins.

Tafla 4

Búseta starfsmanna Fjarðaáls 2018 2019
Búseta í Fjarðabyggð. 62,6% 62,6%
Búseta í Fljótsdalshéraði 29,7% 30%
Búseta annarsstaðar á Austurlandi 3,7% 4%
Búseta annarsstaðar á landinu 3,9% 3,4%

Tafla 5

Nýráðningar 2017 2018 2019
Fastráðningar 29 24 38
Tímabundnar ráðningar 23 15 11
Ráðningar sumarstarfsmanna 110 113 110
Íhlaupastarfsmenn í tímavinnu 48 55

Tafla 6

Búseta nýráðinna starfsmanna Fjarðaáls 2017 2018 2019
Búseta í Fjarðabyggð 74% 75% 74%
Búseta á Fljótsdalshéraði 19% 17% 21%
Bústa annarsstaðar á Austurlandi 3% 0% 0%
Búseta annarsstaðar á landinu 3% 8% 5%

Starfsánægja

Árlega gerir Gallup vinnustaðargreiningu hjá Fjarðaáli þar sem meðal annars er könnuð starfsánægja. Árið 2019 mældist starfsánægja minni en áður með meðaleinkunn upp á 3,97 við spurningu um ánægju starfsmanna með vinnustaðinn. Lækkun milli ára er 0,02. Mælt var á kvarðanum 1-5. Helstu þættir til að útskýra minni ánægju meðal starfsfólks undanfarin tvö ár eru fyrst og fremst erfiðleikar í rekstri og álag sem því fylgir. Í byrjun árs 2020 voru niðurstöður könnunarinnar kynntar fyrir starfsfólki og innleiddar aðgerðir til að auka starfsánægju og helgun.

Kynjahlutfall og starfsmannavelta

Hlutfall kvenna hjá fyrirtækinu árið 2019 var 23,5% samanborið við 22% árið 2018 svo það var jákvæð þróun. Markmið fyrirtækisins er að laða fleiri konur til starfa og hafa aðgerðir og markmið tekið mið af því. Hlutfall karla og kvenna er jafnara þegar litið er til sumarstarfsmanna. Fjarðaál hefur ávallt haft það markmið að jafna kynjahlutföll og byggja upp vinnustað þar sem allir fá jöfn tækifæri til að njóta sín og vaxa í starfi. Fyrirtækið hefur sett jafnréttismál í brennidepil til að skapa betri vinnustaðarmenningu sem byggir á jafnrétti og fjölbreytni. Stjórnendur fyrirtækisins eru vakandi fyrir tækifærum til að jafna kynjahlutföll og þegar auglýst er eftir nýju starfsfólki er sérstaklega kallað eftir umsóknum frá því kyni sem á hallar á tilteknu starfssviði.

Tafla 7

Starfsmannavelta eftir kyni 2017 2018 2019
Karl 5,07% 4,56% 6,76%
Kona 2,34% 2,38% 1,02%
Samtals 7,40% 6,94% 7,79%

Tafla 8

Starfsmannvelta eftir aldurshópum 2017 2018 2019
18-20 - - 0,20%
21-25 1,95% 2,38% 1,01%
26-30 1,56% 1,78% 2,06%
31-35 0,97% 0,40% 2,05%
36-40 0,78% 1,19% 0,42%
41-45 0,98% 0,20% 0,82%
46-50 0,58% 0,60% 0,21%
51-55 0,20% 0,39% 0,20%
56-60 - 0,59% 0,00%
61-66 0,39% 0,00% 0,40%
66- - 0,79% 0,41%
Samtals 7,40% 6,94% 7,79%

Starfsmannavelta hækkaði lítillega milli ára. Hún var um 7% árið 2018 en tæp 8% árið 2019. Í byrjun árs 2109 þurftu stjórnendur Fjarðaáls að taka þá erfiðu ákvörðun að segja upp sex starfsmönnum vegna hagræðingar. Óvissa sem var ríkjandi á álmörkuðum og erfið rekstrarstaða kallaði á þessar aðhaldsaðgerðir. Þessar uppsagnir telja ekki inn í starfsmannaveltu tölu þar sem störfin voru lögð niður og voru þau úr mismunandi sviðum starfseminnar.

Jafnréttismál

Jafnréttisstefna Alcoa Fjarðaáls er unnin út frá lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Alcoa Fjarðaál stefnir að því að helmingur starfsmanna fyrirtækisins verði konur og tengir jafnréttisstefnu sína jafnframt við gildin sem Alcoa starfar eftir um allan heim. Í öllum starfsauglýsingum fyrirtækisins eru störfin auglýst fyrir bæði kyn og því hönnuð á þann veg að bæði kyn geti unnið þau á öruggan hátt. Báðir foreldrar eru hvattir til að huga að samræmingu fjölskyldulífs og vinnu og axla jafna ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna.

Alcoa Fjarðaál tekur þátt í Jafnréttisvísi Capacent sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins.

Hjá Alcoa Fjarðaáli er kynferðisleg og kynbundin áreitni og einelti ekki liðin og eru slík mál tekin föstum tökum. Ef slíkt mál kemur upp þá er fylgt eftir skýrum verkferlum til að tryggja heilbrigði og öryggi á vinnustaðnum. Í jafnréttisáætlun eru tilgreindir ábyrgðaraðilar að úrbótum og endurskoðun hennar. Framkvæmdastjóri mannauðsmála ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun sé framfylgt. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á eftirfylgni jafnréttisstefnu og frávika frá henni með stuðningi jafnréttisnefndar Fjarðaáls. Því miður var jafnréttisnefndin ekki virk á árinu og er eitt af markmiðum 2020 að leita leiða til að blása lífi í nefndina og veita henni aukið rými til athafna.

Vinnustaðarmenning
Á árinu 2019 útbjó mannauðsteymi Fjarðaáls námskeið um ómeðvitaða hlutdrægni (e. unconscious bias) en fyrirmynd námskeiðsins kemur frá Alcoa Corporation. Öll teymi fyrirtækisins hafa fengið þessa fræðslu þar sem lögð er áhersla á að fólk átti sig á og læri að þekkja merki um ómeðvitaða hlutdrægni. Dæmi um slíka ómeðvitaða hlutdrægni eða hugsanaskekkjur eru forréttindablinda, staðalímyndir, staðfestingarskekkja og hjarðhegðun. Vel var tekið í fræðsluna og líflegar umræður spunnust um málefnið.

Alcoa Fjarðaál tekur þátt í Jafnréttisvísi Capacent sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins. Ítarleg greiningarvinna liggur þar að baki og er markmiðið að koma á breytingaverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Greiningarvinna hófst um miðjan október 2019 með viðtölum við starfsmenn Fjarðaáls og verktaka í álverinu. Ráðgert er að halda fundi með öllum starfsmönnum haustið 2020 og kynna þeim niðurstöður greininga Capacent. Í samráði við Capacent verða síðan næstu skref verkefnisins ákvörðuð.

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum
Tafla 7 sýnir laun kvenna sem hlutfall af launum karla, greind niður á starfsflokka í fyrirtækinu. Við launaákvarðanir sérfræðinga er tekið tillit til reynslu, menntunar og hæfni auk þess sem laun eru borin saman við það sem gengur og gerist á markaði með þátttöku í kjarakönnunum. Launaákvarðanir starfsfólks sem starfar í framleiðslu og iðnaði eru bundnar í kjarasamningi, en mikilvægir þættir í þróun launa þessara hópa eru starfsaldur og vinnufyrirkomulag. Þá getur það haft mikil áhrif til breytinga ef fáar konur eru í ákveðnum hópum eða hafa styttri starfsaldur t.d. í hópi iðnaðarmanna, tækna og sérmenntaðs starfsfólks. Engin kona er á vöktum í iðnaðarmannahópnum og það hefur áhrif á launahlutföllin. Í hópnum skrifstofufólk eru nánast eingöngu konur og þær eru með hærri laun en þeir karlar sem eru hluti af hópnum.

Tafla 9

Laun kvenna sem hlutfall af launum karla eftir störfum 2017 2018 2019
Stjórnendur 91% 92% 89%
Sérfræðingar 97% 95% 96%
Verkfræðingar 90% 88% 95%
Tæknar og sérmenntað starfsfólk 90% 80% 93%
Skrifstofufólk 100% 135% 100%
Þjónustu-, sölu og gæslustörf 93% 96% N/A
Iðnaðarmenn og sérhæft iðnverkfólk 81% 83% 93%
Véla og vélagæslufólk 95% 96% 97%

Jafnlaunavottun
Sumarið 2017 hlaut Fjarðaál vottun samkvæmt jafnlaunastaðli velferðarráðuneytisins og var fyrsta stórfyrirtækið hér á landi til að hljóta þá vottun. Árið 2019 fóru fram tvær svokallaðar viðhaldsúttektir á staðlinum sem Fjarðaál stóðst með prýði. Úttektirnar staðfesta að unnið er samkvæmt skjalfestu verklagi. Launagreining í viðhaldsúttekt árið 2019 sýndi að kynbundinn launamunur mældist ekki hjá Fjarðaáli. Í launagreiningunni árið á undan var munurinn 1,4% körlum í hag sem er vel undir skekkjumörkum þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við launamun undir 5%.

Innleiðing á Teams var árangursrík
Árið 2018 hóf Fjarðaál innleiðingu á samskiptaforritinu Teams frá Microsoft til að nota sem innri upplýsingaveitu fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Svo vel tókst til með innleiðinguna að sumarið 2019 sendi Microsoft teymi til Íslands til að gera myndband um innleiðinguna sem forstjóri Microsoft, Satya Nadella, sýndi á stórri ráðstefnu í Las Vegas seinna það sumar. Myndbandið, þar sem rætt er við nokkra starfsmenn Alcoa, má nálgast á vefsíðu Microsoft. Innleiðinginn var vel heppnað samstarfsverkefi Fjarðaálsstarfsmanna og upplýsingatækniteymis hjá Alcoa Corporation. Vinnan reyndist mjög árangursrík og leiddi fljótlega til notkunar helstu tóla Teams forritsins, m.a. spjalls, samtala með hljóði, funda, skjaladeilingar og síðast en ekki síst „Shifts“ vaktakerfisins sem starfsmenn gátu nálgast í farsímanum sínum. Þannig var mönnun vakta gerð mun einfaldari en áður og hægt var að leggja stórum segultöflum sem áður voru notaðar við skipulagningu vakta.

Nánar um jafnréttismál

Starfs- og siðareglur

Starfs- og siðareglur Alcoa eru vegvísir fyrir heilindi starfsmanna og góða stjórnarhætti. Markmiðið er að þær veiti starfsmönnum leiðsögn til að uppfylla viðmið félagsins hvað varðar góða viðskiptahætti sem snýr fyrst og fremst að því hvernig félagið vill stunda viðskipti á alþjóðavísu. Starfsreglurnar eru endurskoðaðar árlega og fá starfsmenn markvissa fræðslu vegna þessa. Starfsmenn eru hvattir til að tilkynna meðal annars brot af ýmsu tagi, líkt og spillingu, brot á mannréttindum, mismunun eða einelti, brot á hugverkaréttindum og mögulegar öryggisógnanir. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Fjarðaáls.

Öryggi

Mikil áhersla er lögð á öryggi og heilsu starfsfólks og verktaka hjá Alcoa Fjarðaáli og eru þessi mál í forgangi ásamt umhverfismálum. Unnið er markvisst að því að lágmarka hættu á slysum, lágmarka mengun, efla heilsu og stuðla að öruggu vinnuumhverfi. Sú hugmyndafræði sem notast er við þegar kemur að því að greina hættur, meta aðstæður og fyrirbyggja frávik eða slys nefnist „Mannleg hegðun“. Þessi nálgun hefur reynst vel og góður árangur hefur náðst í fækkun alvarlegra frávika. Starfsmenn beita einnig aðferðafræði sem kallast „stjórnun helstu áhættuþátta“ til að tryggja að réttu varnirnar gegn þekktum hættum séu ávallt til staðar. Mikil áhersla er lögð á rétt starfsfólks til að „stoppa og leita sér hjálpar“ ef það upplifir óöryggi eða hefur ekki næga þekkingu á verkinu sem er verið að vinna. Þá er skylda að halda verkfund áður en verk hefst ef hætta á slysum er talin vera til staðar.

Alcoa Fjarðaál fylgir stefnu sinni og móðurfélagsins í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum: Markvisst er unnið að umbótum í starfsumhverfi til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks. Öll slys og óhöpp eru skráð til að læra af þeim. Félagið er vottað af OHSAS 18001 heilsu- og öryggisstjórnunarkerfinu. Allir starfsmenn fá grunnþjálfun í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum.

Hjá Alcoa Fjarðaáli eru starfandi 15 heilsu- og öryggisnefndir en hlutverk þeirra er að stuðla að bættu heilbrigði og öryggi á vinnustað. Tæp 10% starfsmanna taka virkan þátt í þessu nefndarstarfi á vinnutíma. Nefndir vinna að ýmsum málefnum og koma að þjálfun svo sem í fallvörnum, „læsa, merkja, prófa“ og „hættuleg efni“ svo einhver dæmi séu nefnd. Jafnframt stuðla nefndir að ýmsum endurbótum sem miða að því að gera vinnustaðinn öruggari með því að útrýma hættum og bæta vinnuaðstöðu og verklag.

Slys og frávik gagnvart heilsu og öryggi
Slys, næstum-því-slys* og frávik gagnvart heilsu og öryggi eru skráð inn í atvikaskráningakerfi og tilkynnt í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Framkvæmdar eru rótargreiningar og fyrirbyggjandi aðgerðir innleiddar til þess að samskonar atvik endurtaki sig ekki. Á síðastliðnu ári voru skráð 7 „næstum-því-slys“og tvö fjarveruslys hjá starfsmönnum Alcoa og eitt hjá verktaka. Fjöldi tilkynntra fjarveruslysa á hverjar 200 þús. vinnustundir voru 0,78. Engin banaslys hafa orðið hjá Alcoa Fjarðaáli frá upphafi reksturs. Tvö fjarveruslysanna voru fallslys þar sem annars vegar gólfgrind var ekki til staðar þar sem hún átti að vera og hins vegar þar sem gólfgrind gaf sig undan starfsmanni eftir að hafa færst úr stað á burðarbita. Þriðja fjarveruslysið var fingurmeiðsl þar sem fingur lenti í búnaði.

* „Næstum-því-slys“ eru byggð á upplýsingum vegna óhappa sem urðu og hefðu hugsanlega getað valdið varanlegri örorku eða banaslysi.

Tafla 10

Slys og slysatíðni 2015 2016 2017 2018 2019
Fjarveryslys 1 2 1 0 2
Næstum-því-slys - 18 12 13 11
Tíðni fjarveruslysa 0,17 0,44 0,23 0 0,462
Tíðni meðferðaslysa 1,59 2,64 2,71 2,05 2,543
Tíðni allra slysa 7,43 17.63 14,26 16,4 14,33
Tíðni fjarveru, og vinnutakmarkana 0,35 0,44 0,9 0,45 1,618
Nánar um öryggi

Heilsa og velferð

Fjarðaáli er annt um heilsu starfsmanna sinna og leggur mikla vinnu í að fyrirbyggja atvinnutengda sjúkdóma eins og t.d. öndunarfærasjúkdóma, heyrnarskerðingu, húðvandamál og langvarandi stoðkerfissjúkdóma.

Á hverju ári er framkvæmdur mikill fjöldi mælinga á t.d. hávaða eða mengun í andrúmslofti starfsmanna, til þess að fylgjast með vinnuumhverfinu og tryggja að starfsmenn séu varðir á besta hátt sem völ er á. Þessar mælingar stýra heilsufarsskoðunum starfsmanna sem fara fram á heilsugæslu Fjarðaáls, hvaða varnir starfsmenn þurfa að nota, ásamt umbótastarfi sem hefur það að markmiði að bæta vinnuumhverfi starfsmanna.

Velferðarþjónusta
Öflug velferðarþjónusta er rekin fyrir starfsfólk og nánustu ættingja þeirra þar sem boðið er upp á ýmis konar sérfræðiþjónustu. Þjónustan felur í sér að starfsmenn og nánustu ættingjar þeirra geta leitað aðstoðar hjá breiðum hópi fagaðila vegna persónulegra erfiðleika eða óvæntra áfalla. Þjónustan er starfsmönnum að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda fyrirtækisins. Fullur trúnaður er viðhafður og upplýsingar ekki veittar til vinnustaðar. Um er að ræða sex tíma á ári á sviði fjármálaráðgjafar, lögfræðiaðstoðar, sálfræðiráðgjafar, lífsstílsráðgjafar og svefnmeðferðar á netinu svo dæmi séu tekin. Algengast hefur verið að starfsmenn nýti sér lögfræði- og sálfræðiþjónustu.

Heilsuefling
Hjá Fjarðaáli er starfrækt heilsueflingarnefnd sem skipuleggur ýmsa hreyfiviðburði og heilsueflingu fyrir starfsfólk. Helstu viðburðir árið 2019 voru eftirfarandi:

  • Vinnufatajóga sem starfsmenn höfðu aðgang að í hádeginu annan hvern miðvikudag frá hausti fram að jólum. Í kringum 10 manns nýttu sér það í hvert skipti.
  • Í maí var boðið upp á fræðsluerindi um streitu í samvinnu við mannauðs-teymi Fjarðaáls. Erindið flutti Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir sálfræðingur.
  • Þyngdartapsáskorunin ,,Léttum okkur lífið“ þar sem fjögur lið kepptust um að léttast hlutfallslega sem mest. Samtals misstu liðin um 79 kg.
  • Fyrirhugað var að ganga á Nípukoll í Norðfirði í lok ágúst en vegna veðurs var gengið í Hundsvík í Norðfirði í staðinn og tóku 14 manns þátt. Með göngunni var Hollvinafélag FSN styrkt um 300 þúsund krónur.
  • Opinn fyrirlestur sem Sigurjón Ernir Sturluson íþróttafræðingur og einkaþjálfari hélt í október um mataræði og hreyfingu. Mæting var með ágætis móti eða um 30 manns. Opið var fyrir almenning á fyrirlesturinn og það voru nokkrir sem nýttu sér það.
  • Hjúkrunarfræðingur Fjarðaáls bauð upp á kynningu á Hugrænni atferlis-með-ferð á teymisfundum á haust-dögum.

Heilsugæsla
Heilsugæsla Fjarðaáls er opin alla virka daga frá 8-16 og er þjónustan þar fjölbreytt. Til dæmis komu rúmlega 100 starfsmenn á árinu í reglubundnar heilsufarsskoðanir svo sem öndunar- og heyrnarmælingu, sem er liður í forvarnarstarfi gegn atvinnutengdum sjúkdómum. Um 600 heimsóknir voru skráðar í ýmsar heilsumælingar og um 100 starfsmenn mættu í inflúensubólusetningu.

Nánar um heilsu og velferð

Hlunnindi fastráðinna starfsmanna

Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa aðgang að mötuneyti og heilsugæslu á vinnustaðnum. Jafnframt fá þeir fríar rútuferðir til og frá vinnu. Starfsmönnum býðst einnig að sækja um stuðning við nám sem nýtist í starfi. Sex raftenglar eru á aðalbílastæði starfsmannabyggingar þar sem starfsmönnum gefst kostur á að hlaða rafbíla á vinnutíma. Tenglarnir hafa verið vel nýttir frá því að þeir voru settir upp og merkja má aukningu í notkun þeirra milli ára. Þá gefur fyrirtækið starfsmönnum sínum veglega jólagjöf á hverju ári sem samanstendur af matarpakka og óvæntri gjöf.

Starfsmenn geta sótt um styrki vegna líkamsræktar, gleraugnakaupa, laseraðgerða á augum, meðferðar hjá hnykklækni, sjúkraþjálfara, nuddara, fótaaðgerðasérfræðingi og vegna göngugreiningar og innleggja. Ristilspeglun í forvarnarskyni gegn krabbameini fyrir 50 ára og eldri er að fullu greidd.

Frá árinu 2010 hefur starfsmönnum gefist kostur á að greiða mánaðarlegt framlag í Styrktarsjóð starfsmannafélagsins Sóma. Þátttaka í sjóðnum er valfrjáls og greiðir Alcoa Fjarðaál mótframlag. Úthlutað er úr Styrktarsjóðnum til þeirra er í hann greiða vegna alvarlegra veikinda eða slysa í nánustu fjölskyldu.

Starfsþróun og endurmenntun

Alcoa Fjarðaál leggur mikinn metnað í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið býður starfsmönnum sem uppfylla vissar kröfur að stunda nám við Stóriðjuskóla Fjarðaáls en námið skiptist í grunnnám og framhaldsnám. Skólinn er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands. Frá því að skólinn tók til starfa haustið 2011 hafa 126 nemendur útskrifast úr grunnnáminu og 99 úr framhaldsnáminu. Hlutfall kvenna í náminu sem nú er 25%, hefur aukist jafnt og þétt með lengri starfsaldri kvenna í framleiðslu hjá fyrirtækinu en þriggja ára starfsaldur er eitt af inntökuskilyrðunum í skólann.

Hlutfall kvenna í Stóriðjuskólanum er nú 25% og hefur aukist jafnt og þétt

Á árinu 2019 vörðu starfsmenn Fjarðaáls 45.000 klukkustundum til þjálfunar, sem var lækkun á milli ára. Hver starfsmaður notaði um 5,3% af sínum vinnutíma til þjálfunar á árinu sem er lækkun úr 9% frá árinu áður og skýrist fyrst og fremst af erfiðri stöðu í framleiðslunni en þar af leiðandi gafst minni tími til að sinna þjálfun.

Verkefni sem skila árangri fyrir starfsfólk og fyrirtæki
Í maí 2019 kynnti hópurinn sem útskrifaðist úr grunnnámi Stóriðjuskólans verkefni sem stjórnendur Fjarðaáls töldu að öll væru þess eðlis að hægt sé að vinna með þau áfram. Þegar hefur ein hugmyndin sem var kynnt verið innleidd en höfundar verkefnisins, þau Lilja Sigurðardóttir og Elís Pétursson leituðust við að koma í veg fyrir það vandamál að lyklar brotni í kveikjulási lyftara.

Verkefnið kallaðist „Rofar í stað lykla“ og fól eins og nafnið gefur til kynna í sér að skipta út lyklum og kveikjulásum fyrir rofa sem notaðir eru til að gangsetja lyftarana. Við skoðun þeirra kom í ljós að skipta þurfti um tvo kveikjulása á mánuði með tilheyrandi vinnu, framleiðslutapi og kostnaði og því borgaði það sig fyrir fyrirtækið til lengri tíma litið að skipta lyklunum út fyrir rofa.

Nánar um starfsþróun og endurmenntun

Næsti kafli

Fyrri kafli