ALCOA FJARÐAÁL

UMHVERFI

MANNAUÐUR

SAMFÉLAG

EFNAHAGUR OG VIRÐISKEÐJA

UMHVERFI

MARKMIÐ

2017
2018
Alcoa Fjarðaál hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum á vegum fyrirtækisins um 20% fyrir árið 2020.
Árangur 2017: 7% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum frá fyrra ári.
Fyrirhugað er að minnka heildarmagn aukaafurða um 20% fyrir árið 2025.
Árangur 2017: 11,6% í heildarminnkun auka­ afurða.
Að bein losun frá framleiðslu lækki um 0,5-1% á árinu 2018, með bættri nýtingu kolefnis í framleiðsluferlinu.
Að við útskipti á ökutækjum verði valin inn umhverfisvænni kostur/minna mengandi en sá sem var fyrir.

Alcoa Fjarðaál vinnur markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og setur sér metnaðarfull innri markmið í umhverfismálum á ári hverju. Fyrirtækið stendur fyrir yfirgrips­mikilli umhverfis­vöktun í Reyðar­firði í sam­ræmi við vöktunar­áætlun sem er sam­þykkt af Umhverfis­stofnun. Niður­stöður eru birtar í árs­skýrslu sem er aðgeng­ileg á heima­síðum Alcoa Fjarðaáls og Um­hverfis­stofn­unar. Tilgangur um­hverfis­vökt­unar­innar er að meta það álag á um­hverfið sem starf­semi álvers­ins veldur í nágrenni sínu.

Helsta uppspretta mengandi efna í lofti er útblástur frá kerskála. Sá útblástur fer annars vegar upp um rjáfur skálanna og er hins vegar sogaður burt frá kerum og leiddur um þurr­hreinsi­virki eins og lýst er í kafla 6 um fram­leiðslu­ferli.

Fjarðaál stendur fyrir yfirgrips­mikilli umhverfis­vöktun í Reyðar­firði í sam­ræmi við vöktunar­áætlun sem er sam­þykkt af Umhverfis­stofnun.

Á árinu 2017 voru sendar inn sjö form­legar til­kynningar til Umhverfis­stofnunar og Heilbrigðis­eftirlits Austurlands. Áhrif þeirra við­burða sem voru tilkynntir hafa mismikil umhverfisáhrif í för með sér, en þeir helstu voru eftirfarandi:

  • Í júlí var tilkynnt um spilli­efnagám sem sendur var erlendis í misgripum fyrir raflausn. Atvikið hafði engin umhverfisáhrif í för með sér.
  • Í ágúst þurfti að taka straum tíma­bundið af ker­skála vegna bilunar í búnaði sem olli óstöðug­leika bil­unar í búnaði. Þurr­hreinsi­virki, var virkt allan tímann sem lág­markaði mengun í útblæstri. Vart var við aukna losun PFC efna.
  • Í október barst tilkynning frá hafn­ar­starfs­mönnum í Rotterdam um vatns­leka úr álgjalls­gámi sem mót­tekinn var á höfn­inni. Öllu meng­uðu vatni var safnað saman og komið til spilli­efna­mót­töku í Hollandi. Atvikið hafið ekki í för með sér umhverfis­áhrif.

Í öllum þeim tilvikum sem um ræðir var brugðist skjótt við til að lágmarka möguleg umhverfisáhrif. Aðrir atburðir sem tilkynnt var um höfðu ekki í för með sér umhverfisáhrif.

Hráefnis- og auðlindanotkun

Lykiltölur varðandi framleiðslu, hrá­efnis- og auð­linda­notkun koma fram í kaflanum Grænt bókhald. Fram­leiðsla áls árið 2017 var 353.733 tonn, sem er aukning milli ára. Eftir óstöðug­leika sumarið 2016, voru ker­línur keyrðar á lægri straumi í upphafi árs 2017. Straumur var aukinn jafnt og þétt yfir árið þar til að hann náði 385 kA í des­ember. Við straum­hækkun eykst fram­leiðsla og árið 2017 var met­fram­leiðslu­ár frá upphafi reksturs. Heildar­raf­magns­notkun á hvert fram­leitt tonn af áli var 14.033 kwh og lækkaði úr 14.240 kwh.

Allt kælivatn frá iðnaðarferlum er hreinsað í vatns­hreinsi­virki og endur­nýtt í steypu­skála. Vatns­notkun jókst á milli ára vegna auk­innar fram­leiðslu en vatns­notkun Fjarðaáls er þó með því lægsta sem þekkist innan Alcoa samstæðunnar. Í heildina voru notuð tæp 107.000 tonn af vatni á tveimur stærstu steypu­vélum í steypu­skála, þar af 76.678 tonn af fersk­vatni frá vatns­bóli Fjarða­byggðar við Geit­húsaá. Þannig voru 28,3% vatns sem notað var endurnýtt, annars­vegar í gegnum filter­kerfi, og hins vegar í gegnum eim­ingu. Upp­gufun vatns í gegnum kæli­turna er tæp 55% af heildar­notkun á þessum tveimur steypu­vélum. Engu kæli­vatni frá iðn­aðar­ferlum er veitt í frá­rennsli. Jafn­framt er hluti varm­ans sem myndast frá kæli­vatni nýttur til hús­hit­unar og snjó­bræðslu á lóð­inni.

Notkun álflúoríðs jókst um 920 tonn milli ára. Ástæða aukinnar notkunar er sú að natríuminnihald í súráli hækkaði þegar skipt var um birgja. Hátt gildi natríums í súráli veldur því að meira álflúoríð þarf inn í ferlið.

Samanlögð notkun jarðefna­elds­neytis á farar­tæki lækkaði frá fyrra ári. Notkun líf­dísils á árinu var 3.271 L, notkun á dísil­olíu minnkaði úr 526.185 L í 495.434 L, en bensín­notkun jókst um 2.398 L og var 5.369 L. Minni notkun jarð­efna­elds­neytis á farar­tækjum sam­svarar minnkun í losun um 105 tonn ígilda CO2. Notkun própans minnkaði mikið á milli ára eða um 129.676 L. Þessi minnkun samsvarar tæpum 195 tonnum CO2 ígilda á móti 8 tonna minnkun árið 2016. Própan er notað til for­hitunar á búnaði í steypu­skála, m.a. mót á hleifa­steypu­vél. Vegna markaðsaðstæðna var nánast stöðug framleiðsla á hleifum og þurfti því mun minni forhitun á mót en fyrra ár.

Tafla 1

Árið 2017 voru endurfóðruð níu raf­greininga­ker og til þess notuð 282 tonn af bak­skautum og 180 tonn af leiðurum. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 var síðasta ker af 336 kerum kerskála endurfóðrað og endurræst. Notað var minna af koltjörubiki árið 2017 en árið á undan þar sem færri ker voru endurfóðruð. Samhliða er verið að prófa staðgengilsefni sem eru skaðlaus heilsu og umhverfi, og voru um 45 tonn notuð af þessum efnum á móti 52 tonnum af kol­tjörubiki.

Um áramót 2016–2017 voru 327 ker í rekstri, í lok mars var búið að ræsa þau níu ker sem ekki voru í rekstri í upp­hafi árs. Það sem eftir var árs voru öll 336 kerin í fram­leiðslu.

Notkun á öðrum efnum er til­tekin í kaflanum Grænt bókhald. Aukning í hráefna­notkun stafar fyrst og fremst af auk­inni fram­leiðslu en fram­leiðslan árið 2016 var óvenju lág vegna að­stæðna í rekstri sem gerð var grein fyrir í Sam­félags­skýrslu 2016.

Losun í andrúmsloft

Fylgst er með losun helstu meng­andi efna en þau eru loft­kennt flúoríð (HF), ryk og brenni­steins­díoxíð (SO2) auk gróðurhúsalofttegundanna koltvísýrings (CO2), flúorkolefna (PFC) og brennisteinshexaflúoríðs (SF6). Upplýsingar um losun eru teknar saman í kaflanum Grænt bókhald.

Heildarlosun flúors var 0,24 kg á hvert framleitt áltonn sem er einn besti árangur í sögu fyrirtækisins og undir innri markmiðum fyrirtækisins fyrir árið 2017. Heildarryklosun var einnig undir innri markmiðum fyrirtækisins og mældist 0,30 kg/t ál og lækkaði einnig milli ára.

Losun heildarflúoríðs – mynd 2

Losun ryks – mynd 3

Losun brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá notkun for­skauta var nokkuð undir mörk­um þess sem losa má frá for­skautum, eða 12,78 kg/t áls. Los­unin var svipuð á milli ára (mynd4). Fylgst er vel með brenni­steins­innihaldi skauta og berast vikulega upplýsingar frá birgja. Heildarlosun brennisteinssambanda sem SO2 nam 14,10 kg/t ál.

Losun brennisteinsdíoxíð (SO2) frá forskautum – mynd 4

Losun gróðurhúsalofttegunda

Losun koltvísýrings (CO2) er reiknuð út frá notkun forskauta með massa­jafnvægisreikningum. Losun árið 2017 var 1.51 t CO2/t ál og minnkar frá fyrra ári.

Losun koltvísýrings (CO2) – mynd 5

Á mynd 6 sést losun flúorkolefna (PFC) á árunum 2012–2017. PFC er gróður­húsa­loft­tegund sem myndast við spennuris í kerum og útblástur þessara efna er reiknaður út frá fjölda og tíma­lengd spennu­risa. Árið 2017 voru losuð 0,068 tonn CO2-ígilda af PFC efnum á hvert framleitt áltonn. Losun á PFC efnum lækkar frá fyrra ári. Lækkun er til komin vegna stöðugleika í rekstri og útskiptingar á búnaði í kerum sem tryggir öruggari súrálsmötun.

Heildarlosun gróðurhúsaloft­teg­unda frá framleiðslu hækkaði milli ára sem nam 20.082 tonnum ígilda CO2. Þessi hækkun stafar af aukinni notkun forskauta vegna aukinnar framleiðslu á árinu.

Losun flúorkolefna (PFC) – mynd 6

Á árinu var ekkert brennisteins­hexa­flúoríð notað, en markvisst hefur verið unnið að því að þétta búnað til þess að lágmarka flóttalosun. Á árinu 2016 var losun vegna SF6 sem samsvarar 0,91 kg1 CO2-ígildi/t ál eða 301tonn ígildi CO2.

Tafla 2

Flúor í grasi, umhverfisvöktun

Í ársskýrslu eru kynntar niðurstöður umhverfisvöktunar Alcoa Fjarðaáls sem er yfir­grips­mikli vöktun, í sam­ræmi við vökt­unar­áætlun, á helstu þáttum umhverfis í Reyðar­firði, svo sem mæl­ingar á loft­gæðum og gróður­rann­sóknir. Skýrslan er aðgengi­leg á vef Umhverfis­stofnunar og vef Alcoa Fjarðaáls eftir að hún kemur út í byrjun maí. Einn þáttur sem vel er fylgst með yfir sumar­mánuði er styrkur flúors í grasi (mynd 7).

Heildarniðurstöður F í grasi (ug/g) – mynd 7

Niðurstöður ársins 2017, fyrir styrk flúors í grasi, eru þær næst­lægstu sem mælst hafa frá upp­hafi rekst­urs. Þær má meðal annars skýra af því að rekstur ársins var í góðu jafn­vægi og losun heildar­flúors frá starf­seminni var lág (sjá mynd 2). Fjarðaál leggur áherslu á fyrir­byggj­andi að­gerðir til að lág­marka flúor­losun. Í álverinu er starfandi stýrihópur allt árið um kring til að vakta þessa vinnu og árangur. Starfsfólk fær umhverfis­fræðslu svo það átti sig á mikilvægu hlut­verki þess í að lág­marka losun og vel er fylgst með áræðan­leika mengunar­varnar­bún­aðar. Ytri þættir hafa einnig áhrif á styrk flúors í grasi svo sem veðurfar og staðhættir. Ástæðan fyrir því að fylgst er náið með flúor­styrk í grasi er til að tryggja heil­brigði dýra sem ganga í firð­inum. Gott sam­starf hefur verið við bændur sem stunda sauð­fjár­rækt í Reyðarfirði og eru dýrin skoðuð á hverju ári af dýralækni. Aldrei hefur verið sýnt fram á bein áhrif flúors á heilsu­far dýra á svæðinu.

Hávaði

Alcoa Fjarðaál þarf að uppfylla skilyrði um hávaða­mengun. Þessar mælingar skal gera á 8 ára fresti sam­kvæmt mæli­áætlun, eða ef gerðar eru breyt­ingar á rekstri, í sam­ræmi við reglu­gerð 724/2008 um hávaða. Síðustu mæl­ingar voru gerðar árið 2012 þegar ker­smiðjan tók til starfa, og voru niður­stöður undir við­miðunar­mörk­um reglu­gerðar um hávaða. Þar sem ekki eru áætlaðar breytingar í starfsemi fyrir­tækisins verða næstu mæl­ingar gerðar árið 2020.

Aukaafurðir

Alcoa Fjarðaál hefur þá sýn að hægt sé að endur­vinna allar auka­afurðir og að urðun sé síðasti kostur. Fyrir­tækið leggur áherslu á að leita leiða til að koma auka­afurðum frá fram­leiðslu til endur­vinnslu, en mark­mið móður­félagsins eru að árið 2030 fari engar auka­afurðir til urðunar.

Flokkun á uppruna­stað er undir­staða þess að hægt er að koma stærstum hluta auka­afurða til endur­vinnslu frá fyrir­tækinu. En að auki er stöðugt leitað tæki­færa til lág­mörk­unar til að koma í veg fyrir myndun auka­afurða.

Magn auka­afurða á árinu 2017 var 54.694 tonn og þar af voru 99,4% endur­unnin. Alls fóru 342 tonn af lífrænum úrgangi til urð­unar, eða um 0,6% af heild­inni. Fjarða­byggð hefur boðað að hafin verði moltu­gerð í sveitar­félaginu árið 2018 og því bindur félagið vonir við að ná endur­vinnslu­hlut­fallinu nánast upp í 100% á því ári. Ljóst er að sellu­lósi, sem er líf­rænn úrgangur frá vatns­hreinsi­virki mun ekki nýtast til moltu­gerðar að sinni.

Urðunarhlutfall hækkar frá fyrra ári um 0,1% en heildar­magn auka­afurða lækkaði um 11,6%. Að stærst­um hluta er lækk­unin til­komin vegna minna ker­brots sem fylgir endur­fóðrun kera. Mestur hluti, eða um 98% auka­afurða verða til vegna fram­leiðsl­unnar. Á mynd 8 má sjá hlut­fall auka­afurða og spilliefna, annars vegar frá fram­leiðsl­unni og hins vegar frá almennum rekstri. Einnig sést hlut­falls­legt magn auka­afurða sem fór til urðunar af heildar­magni. Hreins­aðar for­skauta­leifar eru um 79% af heildar­magni þeirra auka­afurða sem eru sendar til endur­vinnslu. Þær eru endur­unnar í Mosjøen í Noregi og notaðar í ný for­skaut og voru 22% af heildar­magni inn­fluttra forskauta.

Undanfarin ár hefur náðst mikill árangur í endurbræðslu innanhúss á álfleytum* (e. skimmings), en á síðasta ári voru einungis send 19 tonn til endurvinnslu, miðað við allt að 2.000 tonn á síðustu árum. Samtals voru endurbrætt ál og álfleytur innanhús 6.448 tonn, eða 1,8% af heildarframleiðslu kerskála.

Hlutfallsleg skipting og ráðstöfun aukaafurða árið 2017 – mynd 8

Frárennsli

Skólp frá fyrirtækinu og nær­liggj­andi iðnaðar­svæði er með­höndlað í hreinsi­virki Ból­holts ehf. sem stað­sett er á iðn­aðar­svæð­inu við Hraun. Skólpið fer í gegnum fjög­urra þrepa hreinsun áður en því er veitt til sjávar. Föstum efn­um úr skólp­hreinsi­stöð er komið til endur­vinnslu í jarð­vegs­gerð í tengslum við skóg­rækt.

Frárennsli af svæðum þar sem unnið er með olíu eða efnavöru er leitt í gegnum olíuskiljur og frárennsli frá eldhúsi er leitt gegnum fitugildru. Eru þær tæmdar reglulega og olíu­menguðu vatni komið í úrvinnslu hjá viðeigandi aðilum.

Yfirborðsvatn af iðnaðarlóð er leitt um set­tjarnir áður en það rennur til sjávar. Sýni eru tekin úr frá­rennsli tjarna að hausti og vori. Sýnin árið 2017 voru undir starfs­leyfis­mörkum. Niður­stöður mæl­inga á áli, olíu/fitu og flúoríðum eru gefnar upp sem hæsta og lægsta gildi í kafla 7.1. Samkvæmt starfs­leyfi má magn svif­agna í frá­rennsli ekki aukast um meira en 10 mg/L miðað við mælt magn í inn­rennsli. Mesta hækkun mældist í einu sýni 9 mg/L en almennt var um lækkun að ræða.

Næsti kafli

Fyrri kafli