Ávarp forstjóra

Ágæti lesandi. 

Árið 2021 var ótrúlegt ár í margvíslegum skilningi líkt og árið á undan. Heimsfaraldur hélt okkur í heljar­greip­um annað árið í röð og þurfti að skipuleggja alla starfsemi með farsóttina í huga. Þær miklu vonir sem voru bundnar við bólusetningu gengu ekki eftir og því þurftum við áfram að neita okkur um fjölmarga hluti líkt og starfmannaskemmtanir, fundi og ferðalög. Gífurleg vinna hefur farið í það hjá stjórnendum og starfsfólki Alcoa Fjarðaáls að tryggja óskerta starfsemi á vinnustaðnum og sem betur fer gekk það vonum framar. Vonandi erum við komin fyrir þennan storm og getum farið að setja krafta okkar í aðra hluti. Ég er afar stoltur af því hvernig starfsfólk hefur staðið sig á þessum erfiðu tímum og þakklátur fyrir þær fórnir sem fólk þurfti að færa til að tryggja öryggi á vinnustaðnum.

Hvað reksturinn varðar árið 2021 þá varð algjör viðsnúningur hvað afkomu varðaði. Heimsmarkaðsverð á áli fór að rjúka upp en hafði fram að því verið í mikilli lægð í nokkur ár. Mikið kapp var lagt á að ná stöðugleika í kerskála Alcoa Fjarðaáls með því að fjölga kerum í endurfóðrun til að tryggja góðan rekstur á komandi árum. Vegna þessa mikla endurfóðurnarverkefnis var framleiðslan árið 2021 minni en framleiðslugeta fyrirtækisins en við munum koma öflug til baka á nýju ári 2022 hvað framleiðsluna varðar.  

Við innleiddum og endurbættum fjölda verkefna varðandi rafrænar lausnir til þess að hámarka afkastagetu búnaðar og starfsmanna. Þá hefur einnig verið mikil áhersla lögð á að snjallvæða álverið og innleiða aukna sjálfvirkni. Á árinu lukum við vottunarferli alþjóðlega staðlaráðsins ASI (Aluminium Stewardship Initiative) þegar loks gafst tækifæri fyrir úttektaraðila að koma á staðinn til að ljúka úttektinni en fram að því vorum við með tímabundna vottun. Á heildina litið, þó svo að árið 2021 hafi verið á ýmsan hátt verið örgrandi, höfum við verið yfirveguð, einbeitt og ákveðin í að ljúka því sem við einsettum okkur.

Síðustu sex ár hefur Alcoa Fjarðaál gefið út samfélagsskýrslu sem fylgir stöðlum GRI um samfélagsskýrslugerð og þá fylgir félagið einnig þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samræmast starfsemi og stefnu okkar í samfélagsábyrgð. Við einblínum á sex af þeim sautján heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa innleitt. Í yfirliti yfir markmið okkar í samfélagsábyrgð 2022 má sjá hvernig heimsmarkmiðin tengjast markmiðum fyrirtækisins í samfélagsmálum. 
Alcoa Fjarðaál vill ganga á undan með góðu fordæmi og vera fyrirmynd annarra fyrirtækja þegar kemur að sam­félags­ábyrgð. Við leggjum áherslu á að vinna náið með nær­sam­félaginu og hags­muna­aðilum og gegn­sæ upplýsingagjöf er mikil­væg í því sambandi. Gott dæmi um slíkt er einmitt þessi skýrsla. 

Alcoa Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrir­tæki landsins. Á síðastliðnu ári flutti félagið út vörur fyrir rúma 111 milljarða króna (819M USD) og þar af urðu 37,3 milljarður króna eða 34% eftir í landinu. Þá greiddi fyrirtækið ríflega einn millj­arð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi. 

Á síðastliðnu ári héldum við áfram í vegferð okkur í jafnréttismálum og í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafafyrir­tækið Empower héldum við áfram innleiðingu á Jafnréttisvísi og náðum í stuttu COVID-19 hléi í mars að halda fundi með öllum starfsmönnum þar sem jafnréttismál fyrirtækisins voru krufin til mergjar. Markmið Alcoa Fjarðaáls hefur ávallt verið að hafa jöfn kynjahlutföll og á síðasta ári náðum við að auka hlutfall kvenna, annað árið í röð, þrátt fyrir að við eigum enn langt í land. Kynjahlutfallið meðal starfsfólks, sem var 25% konur á árinu 2020 jókst í 27% á árinu 2021.

Samfélagsskýrslan er aðgengileg rafrænt á slóðinni samfelagsskyrsla.alcoa.is en þar eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og starfsemi fyrirtækis­ins aðgengilegar öllum. Enn fremur er sú leið valin að gefa skýrsluna út rafrænt til að lágmarka umhverfisspor við útgáfuna.

Hafi fólk ábendingar eða athugasemdir er velkomið að senda póst á fjardaal@alcoa.com

Njótið lestursins. 
Einar Þorsteinsson
forstjóri Fjarðaáls