Alcoa Fjarðaál vinnur að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og setur sér metnaðarfull innri markmið í umhverfismálum á ári hverju. Fyrirtækið hefur frá því að álverið hóf rekstur staðið fyrir yfirgripsmikilli umhverfisvöktun í Reyðarfirði í samræmi við vöktunaráætlun sem er samþykkt af Umhverfisstofnun. Niðurstöður eru birtar árlega í ársskýrslu sem er aðgengileg á heimasíðum Alcoa Fjarðaáls og Umhverfisstofnunar. Tilgangur umhverfisvöktunarinnar er að meta áhrif starfsemi álversins á umhverfið í nágrenni þess. Helsta uppspretta mengandi efna frá framleiðslunni í lofti er útblástur frá kerskála. Sá útblástur fer annars vegar upp um rjáfur skálanna og er hins vegar sogaður burt frá kerum og leiddur um þurrhreinsivirki eins og lýst er í kafla 6.1 um framleiðsluferli.
Grænt bókhald
Lykiltölur varðandi framleiðslu, hráefnis- og auðlindanotkun koma fram í kafla 7.2. sem er tafla yfir Grænt bókhald. Töfluna má sjá á bls. 20.
Hráefnis- og auðlindanotkun
Framleiðsla áls árið 2021 var 317.869 tonn sem er lækkun um tæp 17 þúsund tonn milli ára. Þetta er minnsta ársframleiðsla fyrirtækisins síðan það komst í fullan rekstur sem var m.a. vegna aukins fjölda kera sem fóru í endurfóðrun á árinu og því færri ker í rekstri en í venjulegu ári.
Heildar rafmagnsnotkun á hvert framleitt tonn af áli var 14.523 kWst sem er svipuð raforkunotkun á hverja framleiðslueiningu milli ára. Ristími1 lækkaði milli ára með auknum stöðugleika og mun færri kerlekum en árið á undan. Þar af leiðandi var lækkun á losun PFC efna frá starfseminni. Losun CO2 lækkaði einnig milli ára enda var minni framleiðsla og þess vegna minni notkun kolefnisskauta. Notkun álflúoríðs dróst saman um 876 tonn milli ára vegna minni framleiðslu. Heildar flúorlosun á hvert framleitt tonn af áli var áþekk milli ára og innan ársmeðaltals starfsleyfis.
Árið 2021 var hafist handa við stórt orkusparnaðarverkefni hjá Alcoa Fjarðáli sem felur í sér að skipta út flúorljósum í verksmiðjunni fyrir Led-ljós. Búið er að skipta út ljósum í stórum hluta kerskálans og verður haldið áfram með verkefnið þangað til öllum ljósum hefur verið skipt út. Nýja lýsingin bætir mjög vinnuumhverfi starfsfólks samhliða því að vera orku- og viðhaldssparandi.
Flúor í grasi er mældur yfir sumartímann og voru þær mælingar yfir viðmiðunarmörkum vöktunaráælunar sem rakið er til sérstakra veðurskilyrða í Reyðarfirði sumarið 2021, sjá nánar í kafla 7.5. Fylgst var með HF styrk í andrúmslofti á vöktunarstöðvunum líkt og fyrri ár.
Árið 2021 var krefjandi hvað rekstur kerlínunnar varðaði en skipt var út meira en þriðjungi keranna. Svo mikil endurfóðrun kera á einu ári þekkist ekki nema þegar verið er að ræsa nýtt álver svo verkefnið var gífurlega umfangsmikið. En með þessu metnaðarfulla verkefni voru tekin skref í átt að auknum stöðugleika og er reiknað með að ná jafnvægi í framleiðslu árið 2022 með fleiri kerum í rekstri en árin á undan. Samtals voru endurfóðraðar 119 kerskeljar í kersmiðju Fjarðaáls sem rekin er af verktökum. Alls voru notuð um 2.380 bakskaut til þess að fóðra skeljarnar. Líkt og árin á undan var notaður umhverfisvænni þjöppusalli en áður hefur verið gert í endurfóðrunarferlinu, samtals um 817 tonn.
Allt kælivatn frá iðnaðarferlum er hreinsað í vatnshreinsivirki og endurnýtt í steypuskála, en vatnsnotkun Fjarðaáls er með því lægsta sem þekkist innan Alcoa samstæðunnar. Vatnsnotkun minnkaði á milli ára og var ferskvatnsnotkun um 88.140 m3 . Þar af nýttu hleifasteypuvél og HDC lárétta steypuvélin í steypuskála Fjarðaáls um 56.800 m3. Á hverjum sólarhring eru 3.500 rúmmetrar af vatni hreinsað í vatnshreinsivirki Fjarðaáls og endurnýtt í steypuskálanum. Þar af fóru 16.160 m3 af vatninu í gegnum eimara árið 2021. Meðaltals uppgufun frá steypuvélum er 140 m3 á sólarhring sem er um 40% uppgufun af rúmmáli kerfisins. Engu kælivatni frá iðnaðarferlum er veitt í frárennsli. Jafnframt er hluti varmans sem myndast frá kælivatni nýttur til húshitunar og snjóbræðslu á lóðinni.
Samanlögð notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki minnkaði frá fyrra ári um 8.309 L. Notkun á dísilolíu lækkaði úr 451.605 L í 444.469 L á milli áranna 2020 og 2021. Notkun á bensíni lækkaði úr 14.250 L í 13.077 L milli ára. Samanlagt var minni notkun jarðefnaeldsneytis á farartækjum og samsvarar það lækkun á losun um 22 tonn CO2 ígilda. Þegar aksturstímar ársins 2021 voru bornir saman við árið 2020 kom í ljós að aksturstími vinnutækja á álverslóð jókst um 7.230 klukkustundir.
Própan er notað til forhitunar á búnaði í steypuskála, m.a. mótum á hleifasteypuvél. Notkun própans lækkaði milli ára eða um 30.000 L en skýringin á því er að árið 2020 voru stórir ofnar í steypuskála endurfóðraðir og nota þurfti mikið gas til að forhita þá en ekkert slíkt verkefni var framkvæmt árið 2021. Heildarnotkunin nemur minni losun sem samsvarar um 44 tonnum CO2 ígilda.
Úrgangsmál
Alcoa Fjarðaál hefur þá sýn að hægt sé að endurnýta eða endurvinna allan úrgang og að urðun sé síðasti kostur. Fyrirtækið leggur áherslu á að leita leiða til að koma úrgangi og spilliefnum frá framleiðslu til endurvinnslu. Flokkun á upprunastað er undirstaða þess að hægt er að koma stærstum hluta úrgangs til endurvinnslu frá fyrirtækinu. Þar að auki er stöðugt leitað tækifæra til lágmörkunar til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Heildarmagn úrgangs á árinu 2021 var 68.576 tonn sem er aukning um 12% milli ára og skýrist helst af aukinni endurfóðrun kera. Samtals voru 82% endurunnin og 0,3% send til brennslu innanlands. Alls fóru 12.128 tonn af úrgangi til urðunar, eða tæp 17,7% af heildinni. Þetta er hækkun um 5,8% á milli ára og munar þar mestu um aukið magn kerbrota sem voru send til urðunar. Frá árinu 2019 hefur ekki lengur verið unnt að senda kerbrot í endurvinnslu og því fer endurvinnsluhlutfallið lækkandi. Þá er einnig urðaður sellulósi, sem er lífrænn úrgangur frá vatnshreinsivirki en hann er mjög lítið magn af heildinni sem fer til urðunar. Áfram verður leitað leiða til þess að lágmarka urðun og koma kerbrotum og sellulósa í nýtingarferli.
Alcoa Fjarðaál hefur þá sýn að hægt sé að endurnýta eða endurvinna allan úrgang og að urðun sé síðasti kostur.
Mestur hluti, eða um 97% úrgangs verður til vegna framleiðslunnar og um 3% frá almennum rekstri. Á mynd 8 má sjá hlutfall úrgangs og spilliefna, annars vegar frá framleiðslunni og hins vegar frá almennum rekstri. Einnig sést hlutfallslegt magn úrgangs sem fór til urðunar af heildarmagni. Hreinsaðar forskautaleifar eru um 78% af heildarmagni þess úrgangs sem er sendur til endurvinnslu. Þær eru endurunnar í Mosjøen í Noregi og notaðar í ný forskaut og voru 23% af heildarmagni innfluttra forskauta.
Að bein losun frá framleiðslu lækki um 0,5 – 1% á árinu 2018, með bættri nýtingu kolefnis í framleiðslu
Bein losun frá framleiðslu jókst á árinu um 0,3%. Óstöðugleiki ársins 2018 varð til aukningar á losun, en stöðug vinna er í gangi til að bæta nýtni hráefna í átt að minnkaðri losun.
Að við útskipti á ökutækjum verði valinn umhverfisvænni/minna mengandi kostur.
Endurnýjun á ökutækjum gekk ekki eftir eins og var áætlað 2018. Þó voru tveir nýir raflausnarbílar keyptir inn á árinu sem að leysa ríflega 10 ára gamla bíla af hólmi. Þeir eru dísilknúnir og sparneytnari en fyrirrennarar þeirra og voru teknir í umferð í lok ársins 2018.
Óbein losun gróðurhúsalofttegunda eða losun frá hliðarstarfsemi framleiðslunnar (e. scope 2) verður kortlögð og sett verður upp aðgerða-áætlun fyrir kolefnisbindinu í átt að kolefnishlutleysis starfseminnar (utan ETS).
Þessu var slegið á frest en verður unnið samhliða innleiðingu á ASI staðli á árinu 2020.
Greind verður kolefnislosun frá samgöngum, flutningi vara og framleiðslu.
Þessu var slegið á frest en verður unnið samhliða innleiðingu á ASI staðli á árinu 2020.
Innleitt verður reglulegt eftirlit með notkun og skiptingu jarðefnaeldsneytis farartækja innan lóðar.
Þetta hefur ekki verið innleitt og þarf að kanna betur umfang á verkefninu og hvort mögulegt verður að framfylgja því á árinu 2020.
Stefnt er á að lágmarka magn almenns úrgangs frá starfseminni um að minnsta kosti 10% frá árinu 2018.
Almennur úrgangur jókst á milli ára svo markmiðið náðist ekki. Unnið verður að því áfram að leita leiða til að minnka myndun úrgangs.
Standast vottun gagnvart ASI staðli á árinu
Markmið stóðst en Alcoa Fjarðál var tekið út gagnvart ASI staðlinum í september 2020. Þar sem vottunin var gerð í fjarfundum vegna COVID er vottunin tímabundin þangað til úttektaraðilar komast á staðinn til að ljúka vottuninni. Sjá nánar í kafla 9 um samfélagsmál.
Skipta út díselknúnum lyfturum fyrir rafmagnslyftara
Markmið stóðst en Fjarðaál fjárfesti í upphafi árs í sex nýjum liþínknúnum lyfturum. Sjá nánar í kafla 9 um samfélagsmál.
Að HF losun á framleitt tonn verði undir 0,250 kg/t
Markmið stóðst ekki þar sem heildarlosun var 0,34 kg/t árið 2020.
Standast kröfur gagnvart ISO 50001 um orkunýtni
Markmið stóðst ekki þar sem ákveðið var að fresta þessari innleiðingu.
Hefja gróðursetningu í hlíðinni fyrir ofan kerskála Fjarðaáls
Markmið stóðst. Haustið 2021 var hafist handa við að undirbúa jarðveginn fyrir ofan kerskálann fyrir plöntun. Verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og sá það um að planta fyrstu plöntunum síðasta haust. Haldið verður áfram með verkefnið næstu ár og er næsta plöntun fyrirhuguð vorið 2022.
Vinna að endurvinnsluleið fyrir kerbrot (SPL)
Markmið stóðst. Þrátt fyrir að lausnin sé ekki komin fór mikil vinna í að leita að nýjum leiðum. Það endaði með því að sett var af stað verkefni að skoða þessi mál heildrænt hjá Alcoa og er kominn verkefnastjóri í Evrópu sem vinnur að því að finna varanlega leið til endurvinnslu kerbrota.
Heildarlosun flúors á framleitt tonn áls verði undir 0,32 kg/t
Markmið stóðst ekki þar sem losunin var 0,34 kg/t.
Bæta nýtingu kolefnis um 1,6% milli ára
Markmið stóðst ekki þar sem bæting var um 1%.
Umhverfiskaflann má finna á bls. 18 – 27.