Mannauður

Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls voru um 540 á árinu 2021. Þar af voru konur um 27% starfs­manna sem er hæsta hlut­fall sem þekkist innan Alcoa sam­steypunnar. Í framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls sátu tíu manns í lok árs, þar af tvær konur. Starfsmenn fylgja ýmist vinnustaðarsamningi Alcoa Fjarðaáls, AFLs og RSÍ, eða eru með einstaklingsbundna samninga þar sem launaþróun fylgir samningi VR við SA. Alcoa Fjarðaál hefur þá stefnu að útvista þeim verkefnum í starfseminni sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi. Með þeim hætti rennir fyrirtækið stoðum undir uppbyggingu og rekstur annarra fyrirtækja á svæðinu og hefur þannig jákvæð áhrif á frekari atvinnuuppbygg­ingu á Austurlandi. 

Samtals vinna um 250 manns á vegum annarra fyrirtækja í álverinu eða á álverssvæðinu. Alls hafa því um 800 manns atvinnu á álverssvæðinu við Reyðarfjörð. Verktakar hjá Alcoa Fjarðaáli starfa meðal annars við rekstur mötuneytis, þrif, verkfræðihönnun og framkvæmd fjárfestingarverkefna, starfsmannaakstur, innkaup og lagerhald á rekstrarvörum og varahlutum, við vélsmíði og viðhald, hafnarstarfsemi og vöru­flutninga svo eitthvað sé nefnt. Þessi starfsemi verk­taka endurspeglar breitt starfs­svið sem hefur jákvæð áhrif á nýsköpun og þróun á svæðinu. Mörg ný fyrirtæki hafa sprottið upp á svæðinu í gegnum árin til þess að þjónusta starfsemi álversins.

Viðbrögð við COVID-19

Líkt og hjá flestum fyrirtækjum setti heimsfaraldurinn sitt mark á starfsemina og reyndi á aðlögunarhæfni hjá starfsfólki og stjórnendum líkt og árið á undan. Hjá Alcoa Fjarðaáli starfaði stýrihópur sem samanstóð af framkvæmdastjóra mannauðs, framkvæmdastjóra umhverfis-, heilsu- og öryggismála, yfirmanni samskipta og samfélagsmála og hjúkrunarfræðingum Fjarðaáls. Hópurinn hefur frá upphafi faraldursins haft það hlutverk að skipuleggja þær aðgerðir sem grípa þurfti til á hverjum tíma til að mæta sóttvarnaraðgerðum vegna COVID og sjá um að miðla þeim til starfsfólks.

Heppnin hélt áfram að vera með Austurlandi í faraldrinum en hér komu upp mun færri smit en á landsvísu sérstaklega framan af ári. Um haustið fór að bera á samfélagssmitum í samfélögunum í kringum vinnustaðinn en það hafði sem betur fer ekki alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir vinnustaðinn. Hjá Alcoa Fjarðaáli komu alls upp 21 smit árið 2021. Þar sem Fjarðaál er stærsti vinnustaður Austurlands er ljóst að það skipti sköpum að vel var staðið að sóttvörnum á vinnustaðnum enda hefur hann tengingu, ýmist beina eða óbeina, inn á fjölmörg heimili á svæðinu.

Stýrihópur COVID-19 hjá Fjarðaáli átti mjög góð samskipti við fulltrúa sóttvarnarlæknis á Austurlandi og það var gott að geta leitað þangað þegar vafamál komu upp. Eins funduðu fulltrúar hópsins með fulltrúa Almannavarna til að greiða úr vafamálum vegna sóttvarnarreglna.

Starfsánægja

Árlega gerir Gallup vinnustaðargreiningu hjá Fjarðaáli þar sem starfs­ánægja er meðal annars könnuð. Árið 2021 mældist starfsánægja hærri en árið á undan með meðaleinkunn upp á 4,07 við spurningu um ánægju starfsmanna með vinnustaðinn. Mælt var á kvarðanum 1-5. Hækkun milli ára er 18%.

Ánægjulegt er að sjá starfánægju aukast á ný þar sem síðustu ár hefur verið glímt við rekstrarerfiðleika auk þess sem COVID-19 olli ýmis konar röskun á vinnufyrirkomulagi og aðbúnaði starfsfólks. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar fyrir starfsfólki á teymisfundum í byrjun árs 2022. Þar voru niðurstöður ræddar og starfsmenn komu að því að móta aðgerðir til að auka starfsánægju og helgun enn frekar.

Jafnréttismál

Jafnréttisáætlun Alcoa Fjarðaáls er unnin út frá lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Alcoa Fjarðaál stefnir að því að helmingur starfsmanna fyrirtækisins verði konur og tengir jafnréttisáætlun sína jafnframt við gildin sem Alcoa starfar eftir um allan heim. Í öllum starfsauglýsingum fyrirtækisins hafa störf verið auglýst fyrir bæði kyn en sú nýbreytni varð árið 2020 að byrjað var að auglýsa þau fyrir öll kyn og hefur því verið haldið áfram síðan.

Störfin í álverinu eru þannig hönnuð að þeim má sinna á öruggan hátt óháð kyni.

Báðir foreldrar eru hvattir til að huga að samræmingu fjölskyldulífs og vinnu og axla jafna ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna. Í stefnu fyrirtækisins er talað um mikilvægi þess að skapa fjölskylduvænan vinnustað þar sem öllum starfmönnum líður vel. Hjá Alcoa Fjarðaáli er kynferðisleg og kynbundin áreitni og einelti ekki liðin og eru slík mál tekin föstum tökum. Ef mál af þessum toga koma upp þá er fylgt eftir skýrum verkferlum til að tryggja heilbrigði og öryggi á vinnustaðnum. Í jafnréttisáætlun eru tilgreindir ábyrgðaraðilar að úrbótum og endurskoðun hennar. Framkvæmdastjóri mannauðsmála ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun sé framfylgt. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á eftirfylgni jafnréttisáætlunar og frávika frá henni með stuðningi jafnréttisnefndar Fjarðaáls. Því miður var jafnréttisnefndin ekki virk árið 2021 og stendur til að endurskoða hlutverk hennar og tilgang.

Jafnréttisvísir

Alcoa Fjarðaál tekur þátt í Jafnréttisvísi Empower sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins. Jafnréttisvísir er stefnumótun og vitundarvakning í jafnréttismálum. Ítarleg greiningarvinna liggur að baki hjá Empower og Alcoa Fjarðáali og er markmiðið að koma á breytingaverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Greiningarvinna hófst um miðjan október 2019 með viðtölum við starfsmenn Fjarðaáls og verktaka í álverinu. Hluti af innleiðingu Jafnréttisvísis var að halda fundi fyrir alla starfsmenn um jafnréttismál og fóru þeir fram á tímabilinu 16. – 24. mars 2021. Fundirnir fóru fram í tveimur aðskildum sóttvarnarhólfum í Valaskjálf og heppnuðust vel. Starfsfólk tók virkan þátt í verkefnavinnu og umræðum. Afrakstur fundanna var aðgerðaráætlun sem fyrirtækið vinnur nú samkvæmt. Yfir 500 umbótahugmyndir fæddust á fundunum.

Öryggi

Mikil áhersla er lögð á öryggi og heilsu starfsfólks og verktaka hjá Alcoa Fjarðaáli. Unnið er markvisst að því að lágmarka hættu á slysum, lágmarka mengun, efla heilsu og stuðla að öruggu vinnuumhverfi. Sú hugmyndafræði sem notast er við þegar kemur að því að greina hættur, meta aðstæður og fyrirbyggja frávik eða slys nefnist „Mannleg hegðun“. Þessi nálgun hefur reynst vel og góður árangur hefur náðst í fækkun alvarlegra frávika. Starfsmenn beita einnig aðferðafræði sem kallast „stjórnun helstu áhættuþátta“ til að tryggja að réttu varnirnar gegn þekktum hættum séu ávallt til staðar. Mikil áhersla er lögð á rétt starfsfólks til að „Stoppa og leita sér hjálpar“ ef það upplifir óöryggi eða hefur ekki næga þekkingu á verkinu sem er verið að vinna. Þá er skylda að halda verkfund áður en verk hefst ef hætta á slysum er talin vera til staðar. 

Markvisst er unnið að umbótum í starfsumhverfi til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks.

Alcoa Fjarðaál fylgir stefnu sinni og móðurfélagsins í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum.  Öll slys og óhöpp eru skráð til að læra af þeim. Félagið er vottað af OHSAS 18001 heilsu- og öryggisstjórnunarkerfinu. Allir starfsmenn fá grunnþjálfun í umhverfis-, heilsu-, og öryggismálum. Hjá Alcoa Fjarðaáli eru starfandi 15 heilsu- og öryggisnefndir en hlutverk þeirra er að stuðla að bættu heilbrigði og öryggi á vinnustað. Tæp 10% starfsmanna taka virkan þátt í þessu nefndarstarfi á vinnutíma. Nefndir vinna að ýmsum málefnum og koma að þjálfun svo sem í fallvörnum, „læsa, merkja, prófa“, „hættuleg efni“ svo einhver dæmi séu nefnd. Jafnframt stuðla nefndir að ýmsum endurbótum sem miða að því að gera vinnustaðinn öruggari með því að útrýma hættum og bæta vinnuaðstöðu og verklag. 

Samsetning vinnuafls eftir störfum

Samsetning vinnuafls eftir aldri

Samfélagsmarkmið og árangur

Í kjölfar #metoo bylgjunnar verður lögð áhersla á að bæta vinnu­staðar­menningu Fjarðaáls með jafn­réttismál í forgrunni.

Haldnir voru fundir um jafnrétti og vinnustaðarmenningu. Viðhorf starfsfólks var kannað og skrifað undir vinnustaðarsáttmála til að tryggja góða vinnustaðarmenningu. Þessu var svo fylgt eftir á starfsmannafundum á markvissan hátt með umbætur að leiðarljósi.

Gera tilraun með breytingar á vaktakerfi með það að markmiði að auka ánægju starfsmanna með vaktakerfi um 5% frá árinu 2017.

Vegna gagnrýni á framkvæmd tilraunar var ákveðið að allir vakthópar fengju að taka þátt í nýrri tilraun í byrjun árs 2019. Niðurstöðu er að vænta á árinu 2019.

Mæla hvort viðeig­andi varnarlög séu til staðar til að tryggja öryggi starfsfólks. Varnarlög verði til staðar í 95% tilfella.

Góður árangur hefur áunnist í öryggismálum með innleiðingu varnarlaga við áhættusöm störf. Á síðasta ári var mikilvægasta varnarlagið til staðar í 96% tilfella.

Aukin árvekni og bættar skráningar vegna heilsutengdra einkenna, með vitundarvakningu og þjálfun allra starfsmanna.

Atvikaskráningakerfi Fjarðaáls var uppfært á árinu til þess að geta betur fylgt eftir heilsutengdum frávikum, og fjöldi slíkra skráninga jókst eftir vitundarvakningu og þjálfun starfsmanna.

Gera samfélagsábyrgð að hluta kennslu í öllum fögum sem kennd eru á vegum fyrirtæksins í Stóriðjuskóla.

Samfélagsábyrgð er hluti af mörgum fögum í Stóriðjuskólanum, ekki síst umhverfiskennslunni. Árið 2020 stendur til að endurskoða skipulag skólans og þá verður þetta skoðað betur.

Innleiddur verður sérstakur hugbúnaður til að styðja enn frekar við innleiðingu á mikilvægasta varnarlaginu.

Fjarðaál innleiddi á árinu 2019 hugbúnaðinn Forwood sem er sérstaklega hannaður til staðfestingar á því að varnarlög séu til staðar

Að mikilvægasta varnarlagið (MV) verði til staðar í 95% tilvika í úttektum og tryggt að tengsl á milli slysa og tilvistar MV verði greind.

Mikilvægasta varnarlagið var til staðar í yfir 95% úttekta sem gerðar voru í doforms. Þessar úttektir verða framvegis gerðar í Forwood hugbúnaðinum með öðrum hætti og þá verður markmiðum breytt.

Að mældur styrkur óæskilegra lofttegunda í vinnuumhverfi í kerskála lækki um 15% miðað við mælingar á árinu 2018.

Gekk ekki eftir enda erfitt rekstrarár

Bjóða öllum starfsmönnum Fjarðaáls upp á fræðslu um ómeðvitaða fordóma

Staðið, sjá nánar í undir Jafnréttismál

Halda vinnufundi í anda Jafnréttisvísis Capacent með öllu starfsfólki til að ræða vinnustaðarmenningu.

Þessu var frestað til ársins 2021 vegna COVID-19.

Fram fari endurskoðun (Kaizen) á Stjóriðjuskólanum til þess að námið nýtist bæði starfsmönnum og fyrirtækinu betur.

Þessi vinna hófst árið 2020 en þurfti að fresta vegna COVID-19 og verður lokið á árinu 2021.

Ljúka fyrsta stigi þjálfunar starfsmanna á úttektarforritinu Forwood. Markmiðið er að 70 starfsmenn verði virkir úttektaraðilar í lok árs 2020.

Markmiðið stóðst og í árslok voru 80 manns búnir að fá þjálfun í að gera úttektir með Forwood.

Að auka hlutdeild kvenna í nýráðningum.

Markmiðið náðist ekki þar sem hlutfall í nýráðningum var 44% árið 2020 samanborið við 45% árið 2019. 

Áframhaldandi innleiðing Jafnréttisvísis í samstarfi við Empower

Markmið stóðst

Fjöldi Forwood1 úttekta verði 300 á mánuði

Markmið stóðst

Draga úr álagi og yfirvinnu með því að tryggja rétta mönnun
í öllum teymum

Markmið stóðst að hluta, minni yfirvinna var unnin árið 2021 samanborið við 2020 en ekki tókt að tryggja rétta mönnun í öllum teymum allt árið. 

Fjölga loftskiptahjálmum í kerskála upp í 100

Markmið stóðst

Mannauðskaflann má finna á bls. 28 – 38.